Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

málefni hælisleitenda.

[15:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra varðandi komu flóttamanna frá Venesúela sérstaklega. Það var 12. febrúar sl. sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og hv. þingmaður, birti vídeó á Facebook-síðu sinni þar sem birt var auglýsing frá ferðaskrifstofu sem ku hafa verið staðsett í Venesúela, en svo urðu áhöld um það þegar betur var að gáð. Við fengum send gögn frá aðila sem hafði farið í gegnum ferlið hjá þessari ferðaskrifstofu, allt að þeim tíma er þurfti að greiða fyrir flugmiðana og þjónustuna.

Nú var þetta tiltekna flug sem um ræddi í þessu tilviki, það er sennilega u.þ.b. að leggja af stað, flýgur frá Karakas til Madrídar og frá Madríd til Íslands og lendir hér einhvern tímann upp úr miðnætti á morgun. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Þegar upplýsingar sem þessar liggja fyrir, er tekið eitthvert sérstakt tillit til eða haft vökulla auga en annars væri á landamærunum þegar það liggur fyrir að það hafi verið beinlínis selt í flugferð eins og þarna á sér stað, ferðalag eins og þarna er selt í,? Stjórnvöld hljóta að hafa orðið vör við þessa umræðu sem átti sér stað frá þarna 12. febrúar og dagana á eftir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig bregðast stjórnvöld við þegar svona er í pottinn búið?