Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

málefni hælisleitenda.

[15:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Jú, jú, það fór ekki fram hjá mér frekar en öðrum þegar upplýsingar birtust um að það væri verið að auglýsa sérstaklega Ísland sem paradís fyrir þá sem væru að leita eftir vernd í löndum Evrópu. Í sjálfu sér kemur það ekkert á óvart miðað við þær forsendur sem hafa verið ríkjandi í afgreiðslu umsókna þeirra sem koma frá Venesúela. Mest af því fólki kemur í gegnum Evrópu, þ.e. í gegnum Spán fyrst og fremst. Það hafa nú einhvern tímann verið umræður í þinginu þar sem fólk hefur verið haldið þeim misskilningi að Ísland væri fyrsti viðkomustaður í Evrópu, að fólk sem væri að koma hingað frá Venesúela væri að koma í gegnum Bandaríkin, en svo er ekki. Það er að koma í gegnum Spán langmest. En þetta er þá fólk sem í sjálfu sér fer ekki inn í landið heldur bíður á flugvellinum og heldur síðan áfram í flugið til Íslands. Þar með er þetta fólk komið inn á Schengen-svæðið og þannig er það með íbúa frá Venesúela að þeir eru ekki vegabréfsáritunarskyldir inn á Schengen-svæðið. Síðan kemur þetta fólk að landamærum Íslands og óskar eftir vernd. Við því er lítið að gera annað en að samræma þær reglur sem hér gilda um móttöku flóttamanna frá Venesúela eða afgreiðslu þeirra mála til samræmis við það sem gerist í Evrópu. Við höfum einfaldlega verið að bjóða miklu betur hér. Ákveðin tímamót urðu í því fyrir áramót þegar Útlendingastofnun ákvað að hætta afgreiðslu á þeim forsendum, samkvæmt niðurskurði kærunefndar útlendingamála, og tók að endurskoða aðstæður í Venesúela og byggt m.a. á gögnum frá nágrannaþjóðum okkar og öðrum þjóðum í Evrópu og á hvaða forsendum þær byggja niðurstöður sínar. Nú hefur Útlendingastofnun ákveðið að synja þeim sem eru frá Venesúela upp til hópa (Forseti hringir.) um dvalarleyfi. Það er beðið niðurstöðu kærunefndar útlendingamála (Forseti hringir.) í þeim efnum og ég hef ekki umráðarétt yfir henni (Forseti hringir.) eða get sagt henni fyrir verkum en við bíðum eftir að niðurstaða komi frá þeim.