Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

frístundastyrkur.

[15:56]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu og fyrir þessa hvatningu. Framsóknarflokkurinn vinnur fyrir börn og barnafjölskyldur í landinu. Við leggjum áherslu á það. Það var ekki bara fyrir síðustu kosningar. Við erum að gera það með mjög margþættum aðgerðum, stórum breytingum sem verið er að vinna að í málefnum barna og við leggjum okkur fram við að vinna með öllum þeim aðilum sem eru tilbúnir að vinna að slíku. Það er þannig, eins og ég sagði, og það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði hér, að ekki er gert ráð fyrir vaxtarstyrknum í þeirri mynd sem lagt var upp með í fyrstu atrennu í fjármálaáætlun. Við erum með fjármagn til að vinna að þessum málum. Við erum að útfæra leiðir til að nýta það en við höfum samt áhyggjur af því að þegar við réðumst í slíkar aðgerðir í Covid-faraldrinum og fengum niðurstöðu úr þeim þá vorum við ekki að ná að grípa einmitt þessar fjölskyldur sem hv. þingmaður nefnir, sem ég tek sannarlega undir að við þurfum að ná að grípa. (Forseti hringir.) Þá þurfum við kannski að hugsa: Af hverju er það? Hvað er það annað félagslegt sem gerir það að verkum að við erum ekki að ná að grípa þessar fjölskyldur? Við þurfum að stíga inn í það. Ég sagði það líka á fundi fjárlaganefndar, svo ég komi því til skila, (Forseti hringir.) að peningurinn einn og sér dugir ekki nema við náum félagslega netinu, félagslega stuðningnum og öllu því sem þarf einnig.