Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

bardagaíþróttir.

[16:02]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Skilgreining á íþróttum er auðvitað eitt, það fellur undir íþróttalögin og ÍSÍ er auðvitað með það hjá sér. Ég þekki það vel. Hins vegar eru áhugamannahnefaleikar leyfðir. Þeir voru leyfðir 2002. Hnefaleikafélögin á Íslandi eru undir ÍSÍ og þar af leiðandi eru þeir heimilaðir þar undir, en löggjafinn hefur hins vegar bannað atvinnumennsku í þessari íþrótt með sérstökum lögum frá 1996.

Ég hef sjálf lagt fram frumvarp á Alþingi sem miðar að því að afnema þetta bann og heimila bardagaíþróttir; blandaðar og hnefaleika. Meðflutningsmenn mínir eru bæði úr stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu og má nefna að þingmenn úr flokki hæstv. ráðherra hafa einmitt lagt fram frumvarp sem miðar að því að heimila atvinnuhnefaleika. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða málið og sjá hvort tilefni sé til að veita því brautargengi hér á þinginu, íþróttagreinum og iðkendum þeirra til heilla. Það er mjög eðlilegt að við endurskoðum reglur frá árinu 1996 á árinu 2023.

Í frumvarpinu sem ég lagði fram er lagt til að öll keppni þar sem þátttakendum er heimilt að slá í höfuð andstæðings verði háð leyfi hins opinbera. (Forseti hringir.) Því skoðum við þessi mál auðvitað vel og vandlega, en mér finnst eðlilegt að löggjafinn endurskoði það bann sem hann setur á íþróttagreinar og það er gert á Alþingi.