154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024 sem er að finna á þskj. 1574. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum nokkurra málefnasviða og málaflokka vegna aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum á almennum markaði sem undirritaðir voru í byrjun mars síðastliðinn.

Frumvarpið er þriðja sinnar tegundar á árinu, en áður hafa verið lögð fram og samþykkt tvö fjáraukalagafrumvörp vegna jarðhræringa og eldsumbrota í og við Grindavíkurbæ og þess óvissuástands sem þar hefur skapast.

Mikilvæg skref í átt að stöðugleika voru stigin þegar kjarasamningar á almennum markaði voru undirritaðir. Ein af forsendum þess að kjarasamningar næðust á almennum vinnumarkaði var aðkoma ríkissjóðs og sveitarfélaga sem með ákveðnum aðgerðum gætu tryggt samning til langs tíma sem jafnframt styddu við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta á sama tíma. Þau skref sem aðilar almenna vinnumarkaðarins stigu voru skynsamleg og sýndu framsýni og heildarhugsun. Nú er mikilvægt að opinberi markaðurinn fylgi í fótspor þess almenna. Stjórnvöld hafa með þeim aðgerðum sem við ræðum hér í dag sýnt á spilin. Lengra verður ekki gengið af hálfu stjórnvalda. Það er ekki meira til frammi.

Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar kr. á samningstímanum. Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði með auknu framboði hagkvæmra íbúða í almenna íbúðakerfinu og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þús. kr. á ári. í einstaka tilfellum.

Lög um opinber fjármál marka skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Þannig er tilgreint í lögunum að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum þeim leiðum sem tilgreindar eru í lögunum. Ef fyrrgreindar leiðir duga ekki til er enn fremur hægt að mæta tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, sem ekki er hægt að mæta með öðrum hætti, með almennum varasjóði.

Töluvert áður en kjarasamningar náðust á almennum markaði var til umræðu að hið opinbera tæki þátt í að liðka fyrir samningum. Við vinnslu gildandi fjárlaga lá hins vegar ekki fyrir með hvaða móti eða hvert umfang aðkomu hins opinbera yrði. Því er í þessu frumvarpi um að ræða tillögur um ný verkefni og auknar heimildir sem varða útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga og teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg. Í frumvarpinu er farið fram á auknar fjárheimildir til fjögurra málaflokka á árinu 2024 sem nema um 12,9 milljörðum kr. en það svarar til 0,9% hækkunar á heildarfjárheimildum í gildandi fjárlögum.

Ég vil vekja athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr sjóðnum eru samskonar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. að honum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að best fari á því að þau verkefni sem eru inntak þessa frumvarps verði að svo stöddu ekki fjármögnuð beint með framlögum úr almenna varasjóðnum heldur óskað eftir heimildum með sérstökum fjáraukalögum.

Virðulegur forseti. Ég vík nú að meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu eru lagðar til auknar fjárheimildir til viðeigandi málefnasviða og málaflokka ráðuneyta, samtals um 12,9 milljarðar kr. eins og áður sagði.

Í fyrsta lagi er um að ræða sérstakan einskiptisvaxtastuðning á þessu ári til að mæta auknum vaxtagjöldum heimila með íbúðalán síðustu misseri og er heildarkostnaður vegna þess áætlaður 6 milljarðar kr. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Ekki er gert ráð fyrir að aðgerðin verði endurtekin árið 2025 þar sem forsendur kjarasamninga miðast við að vaxtakostnaður heimila muni lækka.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna barnabóta þar sem bótafjárhæð verður hækkuð og dregið úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000 en viðbótarkostnaður umfram núverandi fjárveitingu er áætlaður 3 milljarðar kr.

Í þriðja lagi er gert ráð skólamáltíðir grunnskólabarna verði gerðar gjaldfrjálsar í haust, frá næsta skólaári, og verða gjaldfrjálsar út árið 2027 í samræmi við gildistíma kjarasamninga á almennum markaði. Áætlaður kostnaður vegna þess nemur 1,5 milljarðar kr. á árinu 2024 en alls munu um 45.000 börn njóta gjaldfrjálsra máltíða.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir hækkun húsnæðisbóta til leigjenda og aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar með fjölgun bótaflokka frá 1. júní næstkomandi. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25% og með því að taka tillit til fjölskyldustærðar verða þannig greiddar húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessa verði um 1,3 milljarðar kr. á árinu 2024.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði úr 600 þús. kr. í 700 þús. kr. á mánuði þann 1. apríl síðastliðinn og er gert ráð fyrir að viðbótarkostnaður vegna þessa nemi 600 millj. kr. á árinu.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir aukinni gjaldfærslu vegna hlutdeildarlána að upphæð 320 millj. kr. en um er að ræða gjaldfærslu 1 milljarðs hækkunar á heimild sem kveðið er á um í 3. gr. frumvarpsins.

Í sjöunda lagi er framlag til vinnustaðanámssjóðs hækkað um 150 millj. kr. til að efla vinnustaðanám og fjölga tækifærum nema til starfsþjálfunar.

Í áttunda lagi er gert ráð fyrir um 50 millj. kr. til þess að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu með því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð.

Í níunda lagi er gert ráð fyrir 49 millj. kr. aukningu framlaga til Ábyrgðarsjóðs launa vegna hækkunar á hámarksábyrgð sjóðsins á yfirstandandi ári.

Lagt var mat á áhrif útgjaldaráðstafana í frumvarpinu á jafnrétti kynjanna í samræmi við aðferðir kynjaðrar fjárlagagerðar. Í ljósi þess að meiri hluta ráðstafananna er ætlað að styðja við tekjulægri hópa og að konur hafa að meðaltali lægri tekjur en karlar eru ráðstafanirnar almennt taldar líklegar til að styðja við markmið um kynjajafnrétti.

Þá og síðast en ekki síst er áhersla lögð á í tengslum við kjarasamningana að bjóða upp á úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga og eru hlutdeildarlánin þar á meðal úrræði fyrir fyrstu kaupendur. Lögð er til breyting á heimildarákvæði 5. gr. fjárlaga um hækkun heimildar til hlutdeildarlána í 4 milljarðar kr. en núverandi heimild hlutdeildarlána er 3 milljarðar kr. af heildarfjárhæð heimildarinnar. Heildarendurlánsheimildin helst þó óbreytt eða 20 milljarðar kr. Til grundvallar nýjum ráðstöfunum á árinu 2024 á sviði húsnæðismála liggur markmið stjórnvalda um aðkomu ríkissjóðs að uppbyggingu 1.000 íbúða á árinu ýmist með stofnframlögum vegna almennra íbúða eða hlutdeildarlánum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir helstu þætti þessa þriðja frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2024 sem er liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við stöðugleika og lækkun verðbólgu og vaxta.

Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. fjárlaganefndar þingsins.