154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:23]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og fagna því mjög að í ljósi tímans séum við að horfa til þess líka að koma af stað góðri umræðu í samfélaginu um þetta stóra og mikilvæga mál. Við höfum svo sannarlega verið minnt á það að undanförnu þó að við þekkjum auðvitað að þessar aðstæður geti komið upp í íslensku samfélagi, bæði hvað varðar náttúruvá af ýmsu tagi. Þá er eitt af því sem ég hefði gjarnan viljað sjá fyrir mér og þá í meðförum nefndarinnar þegar að því kemur, en þá vonandi á fyrri stigum með umsögnum aðila, ítarleg umfjöllun um útgjöld hins opinbera og margháttað viðbragð þess við náttúruvá og samlegðina þá með verkefnum eins og t.d. í dag sem við þekkjum og eru á hendi Náttúruhamfaratryggingar Íslands og ofanflóðasjóðs, í samhengi þess hlutverks sem við sjáum fyrir okkur með sjóðinn. Ef hæstv. ráðherra vildi lítillega koma inn á sína sýn í því þá væri það þakkarvert en annars þakka ég honum kærlega fyrir svörin.