131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:51]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðismönnum er heitt í hamsi þegar málefni Reykvíkinga ber á góma, enda hafa þeir ýmislegt að skammast sín fyrir þar. Sveltistefna Sjálfstæðisflokksins gagnvart Reykjavíkurborg síðan Reykjavíkurlistinn komst þar til valda fyrir 11 árum er náttúrlega með algerum ólíkindum og öll framganga samgönguyfirvalda gagnvart Reykvíkingum og borgarstjórn Reykjavíkur er með algerum ólíkindum. Þess vegna reyna menn að slá ryki í augu fólks með því að halda því fram að hin mikilvæga samgönguframkvæmd sem Sundabrautin er sé um að kenna skipulagsyfirvöldum eða borgarstjórn Reykjavíkur. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega alrangt að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjármunum til þeirrar mikilvægu framkvæmdar. Hönnunin ein og sér er talin kosta um 500 millj. kr. Það er ekki gert ráð fyrir neinum verulegum fjármunum í samgönguáætlun. Það er engin tímasett áætlun um framgöngu verkefnisins. Þetta er einfaldlega á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru að bregðast Reykvíkingum.