131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:48]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að fram komi vegna ræðu hv. þm. Einars Karls Haraldssonar að það liggur ekkert samkomulag fyrir um legu Sundabrautarinnar, það er rangt.

Hvað varðar Mýrargötuna liggur heldur engin niðurstaða fyrir um það og það var fyrst eftir að samgönguáætlun hafði komið fram sem bréf barst frá borgarstjóranum þar sem tekið var upp mál er varðar framkvæmdir við Mýrargötu, þannig að það er sömuleiðis mjög skammt á veg komið. En að sjálfsögðu hefur Vegagerðin komið að því máli og unnið með þeim hjá borginni sem hafa verið að undirbúa framkvæmdir við endurgerð Mýrargötu, en það liggur engin niðurstaða fyrir um það og það kom engin formleg beiðni fram frá borginni um viðræður fyrr en samgönguáætlunin var komin fram. Þetta vildi ég að lægi fyrir.