131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:03]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þessi umræða um samgönguáætlun fer eðlilega víða, enda er þar undir vegáætlun, flugáætlun og hafnaáætlun. Það hefur verið athyglisvert að heyra sjónarmið þeirra sem hér hafa rætt um stöðu flugvallarins og samgöngumál á Reykjavíkursvæðinu. Til að halda öllu til haga er rétt að geta þess að flug á Íslandi átti upphaf sitt hér í Vatnsmýrinni. En þó að Bretar hafi á sínum tíma haldið því starfi áfram eru þeir alls ekki neinir upphafsmenn að því að velja þetta svæði sem miðstöð flugs á Íslandi. Það var gert af landsmönnum sjálfum. Reykjavík er höfuðborg landsins og það er í hæsta máta eðlilegt að í svo stóru landi með miklum víðáttum sé tengingin við höfuðborgina sem best og flugvöllurinn á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann er nú.

Það er athyglisvert að velta fyrir sér umræðunni um skiptingu fjár á milli svæða, milli höfuðborgarsvæðis og dreifbýlis. Af því að hv. þm. Gunnar Birgisson er hér staddur þykir mér rétt að nefna þá ábyrgð sem sveitarstjórnarmenn bera þegar þeir þenja út byggðarlagið sitt. Ísland hefur verið byggt eftir ákveðnu munstri og við það höfum við líka miðað samgönguáætlanir okkar. Þegar stjórnvöld eða einstaka aðilar hleypa síðan þeirri þróun af stað að mikil byggðaröskun verði, eins og átt hefur sér stað hér á síðustu árum þá hlýtur það náttúrlega einhvers staðar að koma niður.

Þá veltir maður fyrir sér: Hefur verið rétt að staðið? Er t.d. eðlilegt að Kópavogur þenjist út og geti síðan sent reikninginn á ríkið vegna aukinna vegaframkvæmda? Þá kemur krafan frá oddvita Kópavogsmanna um að taka fjármagn af Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austfjörðum vegna þess að það hefur tekist, með skipulegum aðgerðum eða óskipulegum af hálfu stjórnvalda, að láta fólk flytjast af þeim svæðum til Kópavogs. Þetta er svipað og menn beita í landnemabyggðunum í Ísrael. Mér finnst ekkert sjálfgefið í þessu og tel ekki að sveitarfélög hafi sjálftökurétt til að þenjast út og senda síðan reikning á ríkið.

Það má einnig velta fyrir sér, ég fór að blaða í því, hve margir þjóðvegir liggja í gegnum bæði Kópavog og Reykjavík. Sumt af þessu eru svo sem eðlilegir þjóðvegir en aðrir eru bara götur, þar sem bæjaryfirvöld innheimta gatnagerðargjöld en láta ríkið reka veginn. (Gripið fram í.) Þetta er alveg hárrétt.

Frú forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson, sem var að tala um að það þyrfti að flytja fjármagn af landsbyggðinni til að standa undir vegaframkvæmdum í kringum Kópavog, ætti bara að lesa hér listann yfir þá þjóðvegi sem liggja í gegnum Stór-Reykjavíkursvæðið. Mörgum mundi finnast nóg um það en önnur þéttbýlissveitarfélög verða að byggja göturnar upp með gatnagerðargjöldum. Nóg um það en þetta sýnir að svona umræða getur verið röng, vitlaus og ósanngjörn, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson hefur haft í frammi, að það sé hægt að gera þetta og hitt og senda síðan reikninginn á ríkið. (GunnB: Hver hefur verið að tala um það?) Hv. þingmaður hefur verið að tala um það, þó að hann vilji ekki kannast við það núna, að þetta var bölvað bull í honum. — Fyrirgefðu orðbragðið, forseti, en það var ekki hægt annað en segja þetta í tilefni af orðum þingmannsins.

Ég vildi líka vekja athygli á því er að hvergi í þessari samgönguáætlun er komið inn á skipasiglingar, hvorki til og frá landinu né strandsiglingar. Það er hvergi komið að því, eins og við erum nú háð siglingum. Ég minni á þingsályktunartillögu sem ég hef flutt ásamt öðrum þingmönnum Vinstri grænna um strandsiglingar. Þær eru að falla niður án þess að fyrir því hafi verið borin fram nein sérstök rök eða einhver heildstæð stefna samgönguyfirvalda liggi þar að baki. Mér finnst því að taka eigi á málefnum strandsiglinga, athuga hvort þar sé um að ræða skekkt samkeppnisumhverfi fyrir skipasiglingar meðfram ströndum landsins. Við upplifum það að þessir flutningar koma í auknum mæli inn á þjóðvegina. Ímyndið ykkur alla þá flutninga sem núna eru frá Ísafirði, frá útgerðarstöðunum á Vestfjörðum, eftir veginum um Ísafjarðardjúp og inn Strandir, á vegum sem alls ekki bera þá flutninga. Samkvæmt þessari vegáætlun nú er t.d. ekki fyrirsjáanlegt að í náinni framtíð verði tekið á vegunum á Vestfjörðum, vegunum frá Djúpi inn á Hólmavík og inn að Brú. Þar eru núna gríðarlegir þungaflutningar. Mér finnst þetta ábyrgðarhluti, bæði hvað varðar öryggis- og flutningsmál. En af því að við erum búin að samþykkja öryggisáætlun þá finnst mér að taka eigi svona vegi út með tilliti til öryggismála, ekki bara að láta vaða á súðum eins og nú virðist ætlunin að gera. Það virðist ekki eiga að gera neitt fyrir veginn frá Hólmavík og inn Strandir að Brú þótt þar séu miklir flutningar.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með ferjurnar? Við höfum verið með ferju, Baldur, sem gengur frá Stykkishólmi og yfir að Brjánslæk. Nú á að fækka þar ferðum, það stendur a.m.k. til og er líklega svo að þar hafi verið fækkað ferðum. Mér hefur heyrst á allir umræðu að frekar þyrfti að auka flutningsmöguleikana með ferjunni á milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Ég vil þess vegna spyrja ráðherra: Hvaða rök eru fyrir því að fækka ferðum þarna og hvernig hugsa menn framtíð Baldurs þar? Hann gegnir gríðarlega miklu hlutverki í allri ferðaþjónustu og einnig í flutningum.

Ég minntist í fyrri ræðu minni á hina erfiðu stöðu safn- og tengivega og fjármagn til þeirra. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja ráðherra: Eru engar horfur á að það fjármagn til þessara vega verði aukið hlutfallslega eins og brýn nauðsyn er til? Ef fram fer sem horfir mun ekki einu sinni verða hægt að halda einu sinni í við ástand þeirra núna.

(Forseti (JBjart): Ef hæstv. ráðherra bregst við spurningu hv. þingmanns hefur hann kost á því að halda áfram máli sínu í svari við andsvari.)