131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:01]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst svolítið undarlegt þegar þingmenn Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðis halda áfram að skírskota til þess fjölda sem býr á höfuðborgarsvæðinu í sambandi við skiptingu vegafjár. Ef við horfum t.d. til Eyjafjarðar búa á því svæði 23–24 þúsund manns. Á Akureyri búa á milli 16 og 17 þúsund manns, ekki 15 þúsund eins og fram kom hjá einum ræðumanni í dag. Það er kannski ekki mikil skekkja. Við verðum að muna eftir því að við getum ekki horft þannig á málin. Ef við horfum t.d. til Eyjafjarðar er verið að ráðast þar í mikla framkvæmd á næsta ári og næstu árum, ekki í ár, sem eru göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og síðan verða þau frá.

Alveg hið sama er um Sundabraut. Undirbúningur hennar hefur tekið mjög langan tíma og var hafinn meðan ég var samgönguráðherra. Unnið hafði verið að rannsóknum á henni í nokkur ár þegar ég hætti sem samgönguráðherra og menn voru þá ekki frekar en nú komnir að niðurstöðu um hvar sú leið skyldi liggja. Þá erum við að tala um 12–16 milljarða kr. og þegar við tölum um þvílíkar fjárhæðir verður að gera sérstaklega ráð fyrir þeim og taka tillit til þeirra þegar við ræðum um samgöngumálin í heild sinni. Það hvort nú koma 100 eða 200 millj. kr. meira eða minna til Sundabrautar skiptir ekki höfuðmáli. Við erum að tala um verulega fjármuni til höfuðborgarsvæðisins með nærliggjandi umferðaræðum, um 8–9 milljarða. Það liggur á því bili. Eðlilegar fjárveitingar til höfuðborgarsvæðisins nú, hv. þm. Gunnar Birgisson. En þarna erum við að tala um sérstakt átak sem mundi vera 12–16 milljarðar til viðbótar. Það er því mjög eðlilegt að sérstaklega verði að gera ráð fyrir slíku.