131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:03]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er spurning um hvernig við metum þörfina og þetta er spurning um hvernig við ætlum að forgangsraða. Ég spyr út frá orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar fyrr í kvöld. Við byrjuðum í Reykjavík og við ætlum að klára norðvestur- og norðausturkjálkana og ég spyr: Hvenær á að koma aftur hingað?

Við erum að tala um 50 ára framkvæmd, 50 ára þróun þar sem fjármagnið hefur farið meira og minna einhvern veginn út á land. Það er jafnlangur tími og ég hef lifað. Reykjavík og höfuðborgarsvæðið hefur breyst alveg ótrúlega á þeim tíma. Við getum vitnað um það með mörgum orðum. Og spurningin er: Eigum við að láta höfðatöluna, íbúaþróunina, kílómetrana, skatttekjurnar, hvað af þessu eru eðlilegar forsendur, eða eigum við kannski að sameinast um að við eyðum fyrst og fremst og setjum í forgang hættulegustu staðina, svörtu blettina, ekki bara í Reykjavík heldur um land allt? Þetta eru alls konar rök.

Hér birtist umræðan þannig að höfuðborgin og landsbyggðin togast á um fjármagnið. Hverjar eru raunverulegar forsendur? Sumir tína til að það sé byggð og það sé atvinna en ég segi eins og hv. þm. Gunnar Birgisson. Fólkið á höfuðborgarsvæðinu, sem er basla þetta kvölds og morgna að komast til og frá vinnu í ekki stærri borg en þetta er, það fer allt upp í hálftími í það fyrir utan öll umferðaróhöppin, sættir sig ekki við þetta mikið lengur. Þetta er okkar nánast umhverfi og þær aðstæður sem við þekkjum. Það er ekki þar með sagt að menn séu að tala um að það fjármagn sem fer á landsbyggðina sé henni of gott, en þetta er veruleg misskipting og einhvern tíma þurfum við að snúa við. Það er ekki endalaust langlundargeð hjá höfuðborgarbúum.