138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

þakkir til Vegagerðarinnar og stuðningur við sveitarstjórnir.

[14:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem fram fór um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vildi ég koma þakklæti mínu á framfæri til hinna fjölmörgu sem komið hafa að gosinu. Við höfum kannski einna oftast heyrt Almannavarnir nefndar í þessu sambandi, eins hinar frábæru björgunarsveitir okkar, lögregluna, heilbrigðisstarfsfólk og svo að sjálfsögðu sveitarstjórnirnar, að ógleymdum hinum mikla baráttuanda og þrautseigju sem hefur einkennt íbúana í þessum geysilega erfiðu aðstæðum.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp í liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir er að ég vil beina spurningu til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en mjög veigamikill hluti af samfélagi okkar fellur undir ráðuneyti hans. Það eru t.d. allar samgöngur á landi og sjó og sveitarstjórnirnar sem hafa skipt svo miklu máli við að tryggja öryggi íbúanna á hamfarasvæðunum.

Við stjórnmálamenn finnum allt of oft ástæður til að gagnrýna starfsfólk og stofnanir ríkisins en þökkum allt of sjaldan fyrir það sem vel er gert. Því vil ég benda á að það er ein stofnun sem ég tel að hafi ekki fengið sérstaklega mikla athygli en skiptir mjög miklu máli þegar flóðið úr Eyjafjallajökli skall á og það er Vegagerðin. Okkur stjórnmálamönnum hefur alltaf þótt óskaplega gaman að tala um Vegagerðina og gagnrýna hana en þá staðreynd að þjóðvegur 1 er enn þá fær, að brúin yfir Markarfljót stendur enn þá og að ómetanlegt land í Rangárvallasýslunni er enn þá nýtilegt, má þakka aðgerðum Vegagerðarinnar. Ég vil óska þess að ráðherrann komi á framfæri þessum þökkum. Þarna fór saman fagþekking, skipulag og framkvæmd án fáts og fums. Þetta er það sem stofnanir og stjórnsýslur eiga að gera. Ég mundi vilja spyrja ráðherrann sérstaklega að því hvað hans ráðuneyti hugsar sér að gera til að styðja við sveitarstjórnir. Það er mikið álag á sveitarstjórnir á hamfarasvæðunum. (Forseti hringir.) Er komin einhver vinna í gang innan ráðuneytisins til að styðja sérstaklega við sveitarstjórnir?