138. löggjafarþing — 108. fundur,  20. apr. 2010.

þakkir til Vegagerðarinnar og stuðningur við sveitarstjórnir.

[14:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau orð sem hún hafði um starfsemi þeirrar stofnunar sem heyrir undir samgönguráðuneytið sem heitir Vegagerðin. Það eru orð í tíma töluð og rétt að það komi fram og skal ég flytja þakkir til Vegagerðarinnar.

Það er alveg rétt sem hér kom fram um þátt Vegagerðarinnar og hefur kannski ekki verið mikill gaumur gefinn, það var aðgerð sem tókst alveg 100%, þ.e. í fyrsta hlaupinu þegar þjóðvegur 1 var rofinn austan við brúna og á þremur öðrum stöðum með stórvirkum tækjum til að vernda brúna. Það tókst fullkomlega. Til að gera þingheimi í hugarlund hvað það hefði kostað, hefðum við misst brúna, er talið að tjónið hefði orðið um 800–900 millj. kr. ef Markarfljótsbrúin nýja hefði skemmst eða farið. Þessi aðgerð tókst fullkomlega og Vegagerðin hefur unnið að því kappsamlega annars vegar að hafa gamla veginn færan og gömlu brúna sem neyðarleið, sem þó hefur takmarkað burðarþol, hins vegar var unnið að fyllingu í skörðin sem mynduð voru. Vegurinn er orðinn fær núna en er þó undir stjórn lögreglu og annarra á þessu svæði sem vega og meta hverjir eiga að fara þar yfir.

Hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi, sem ég vil líka þakka fyrir, eru málefni sveitarfélaganna, vegna þess að það mæðir mjög mikið á sveitarfélögunum hvað þetta varðar. Þessi mál voru rædd í mjög víðu samhengi á ríkisstjórnarfundi í morgun, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið yfir. Ég get sagt að í sveitarstjórnarráðuneytinu erum við auðvitað byrjuð að fylgjast með og verður kallað eftir aðstoð frá þeim sveitarfélögum sem hlut eiga að máli varðandi þann mikla aukakostnað sem hlýst af þessu þó svo að ég geti ekki hér og nú sagt eitt eða neitt um hvernig það verður unnið. En það þarf að sjálfsögðu að fylgjast með sveitarfélögunum líka (Forseti hringir.) og kanna þann kostnað sem þar fylgir með ásamt öllum stofnunum ríkisins sem vinna það mikla og góða verk sem unnið er þarna.