143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

breyttir skilmálar á skuldabréfi Landsbankans.

[10:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nýlega var endursamið um skuldabréf Landsbankans og það lengt, sem var mikilvægt, en það vekur athygli að um leið var samið um hærri vexti á láninu en samið var um í þeirri erfiðu stöðu sem Ísland var í árið 2009. Nú hefur komið fram opinberlega frá hæstv. velferðarráðherra að ekki eigi að líta einangrað á þetta eina mál heldur þurfi að takast á við verkefnin við að losa gjaldeyrishöftin í heild sinni. Fram kom í morgun áskorun frá einum af umsvifamestu fjárfestum landsins á fjármálaráðherra og Seðlabankann að leggjast gegn þessari skilmálabreytingu því að það væri bara verið að lengja í ólinni með hærri vöxtum.

Ég spyr þess vegna hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu hans til skilmálabreytingarinnar og þá einnig hvort stjórnarflokkarnir séu samstiga í þeirri afstöðu og um leið hvers vegna skilmálabreytingin hafi ekki verið rædd á þeim samráðsvettvangi sem stjórnmálaflokkarnir sammæltust um að skyldi vera um meiri háttar ákvarðanir er varða losun gjaldeyrishafta. Þá á ég bæði við nefndina sem allir stjórnmálaflokkar hafa sérstaklega tilnefnt fulltrúa í til að hafa slíkt samráð og sömuleiðis efnahags- og viðskiptanefnd sem mér er ekki kunnugt um að hafi með neinum hætti fjallað um þá breytingu sem nú liggur fyrir.

En fyrst og fremst: Hver er afstaða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til þessarar skilmálabreytingar? Hvað skýrir það að Ísland fái lakari vaxtakjör í þessum samningi en þó náðist árið 2009 þegar lánshæfi Íslands var miklu verra en nú er og þegar aðgengi okkar að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum var ekkert ólíkt því sem nú er? Hvers vegna er samið um lakari vaxtakjör, hæstv. fjármálaráðherra?