143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[11:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að fagna því að þessi tillaga skuli vera komin til atkvæðagreiðslu um leið og ég þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að taka hana svona í gegn.

Það er rétt að þetta er merkileg tillaga sem allt of lítið hefur verið hugsað um, þ.e. þann vágest sem myglusveppir eru, sem hafa m.a. bankað upp á Landspítala, í velferðarráðuneyti, á Alþingisreitnum og fleiri stöðum. Þetta er líka mjög mikið fjárhagslegt tjón hjá fólki. Ég hef áður sagt það, virðulegi forseti, að brenni hús til grunna þá bætist það af brunatryggingu, en þurfi fólk hins vegar að rífa hús sitt út af þessum vágesti og jafnvel með öllum innanstokksmunum og þess vegna fötum þá bætist ekkert og fólkið situr eftir með tjónið.

Þetta er mikilvægt mál og því hvet ég hæstv. ráðherra — ég þykist þess fullviss þegar ég sé hann standa upp að hann ætli að koma í ræðustól og lýsa því yfir að nefndin verði skipuð á næstu dögum og hún vinni hratt og vel og við alþingismenn fáum þá ef til vill breytingartillögur hingað inn um það sem við þurfum að taka á, eins og tryggingamálum o.fl., og samþykkjum þær tillögur sem þarf í framhaldi af þeirri miklu nefndarvinnu sem fram undan er.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna um samþykkt þessarar tillögu.