143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012.

Með lögum um málefni innflytjenda frá árinu 2012 var Fjölmenningarsetrið gert að sérstakri stofnun. Jafnframt var sett bráðabirgðaákvæði þar sem ráðherra var heimilað að skipa núverandi forstöðumann í embætti til loka árs 2013 og skyldi embættið þá vera auglýst laust til umsóknar.

Í velferðarráðuneytinu hefur verið unnið að gerð frumvarps til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála þar sem gert er ráð fyrir sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu og réttindagæslu fatlaðs fólks og þar með niðurlagningu embættis forstöðumanns Fjölmenningarseturs og framkvæmdastýru Jafnréttisstofu. Ráðning núverandi forstöðumanns Fjölmenningarseturs var framlengd um nokkra mánuði í lok árs 2013 þar sem fyrir lá að sameina ætti ofangreindar stofnanir og ekki var talið ráðlegt að auglýsa stöðu forstöðumanns Fjölmenningarseturs.

Núverandi forstöðumaður Fjölmenningarseturs hefur óskað eftir að láta af störfum þann 1. júní næstkomandi. Í ljósi þess að fyrirhugað er að sameina fyrrgreindar stofnanir er hér lagt til að ráðherra verði heimilað að setja forstöðumann Fjölmenningarseturs til skamms tíma. Stöðugildum hjá Fjölmenningarsetri mun þó ekki fækka þar til auglýst hefur verið eftir sérfræðingi í málefni innflytjenda hjá stofnuninni.

Verði frumvarp til laga um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála sem felur í sér umrædda stofnanasameiningu samþykkt á Alþingi er ljóst að þá verður auglýst eftir forstöðumanni nýrrar sameinaðrar stofnunar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeirri breytingu sem frumvarpið felur í sér og hvers vegna hún er lögð til og leyfi mér að lokum að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.