143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Oft er ég sammála hv. þingmanni í mörgum málum, en ekki í þessu. Mér finnst verið að verja gríðarlegum fjárhæðum sem dreifast einhvern veginn til mjög margra heimila þannig að lítið verður úr fyrir hvern og einn, á sama tíma og staða ríkissjóðs er mjög þröng. Við sjáum fram á fjárþröng á næstu árum. Það verður örugglega snúið að klastra saman fjárlagafrumvarpi í haust, get ég ímyndað mér.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þessi meðferð á almannafé vera ábyrg og hvort honum finnist þetta vera skilvirk leið til að koma á móts við heimilin. Einnig vil ég spyrja hvort ekki hefði þurft að greina betur hvaða áhrif það hefði haft fyrir þjóðfélagið og heimilin í landinu ef þessir peningar, þá er ég að tala um þessa 80 milljarða, hefðu verið notaðir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hvað hefði það lækkað vaxtagreiðslur mikið og hverju hefði það skilað?

Mig langar líka til að spyrja hvort hann telji að leigjendur fái réttlátan hlut úr þessum aðgerðum. Ég upplifi það þannig að þeir beri skarðan hlut frá borði.