143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja aðeins að nefna nokkur af þeim atriðum úr umsögn sem minni hluti hv. fjárlaganefndar sendi hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Álitið sem við sendum efnahags- og viðskiptanefnd er um bæði frumvörpin, ekki bara það sem við ræðum hér, þannig að ég geri ráð fyrir að við ræðum álitið ítarlega þegar kemur að næsta frumvarpi. Minni hluta fjárlaganefndar skipa auk mín hv. þingmenn Bjarkey Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir. Við gerðum þetta nefndarálit saman og skrifuðum undir það.

Við töluðum um að svo virtist sem aðgerðirnar mundu auka ójöfnuð í samfélaginu þar sem þær tækju ekki tillit til efnahags- eða eignastöðu heimilanna og það á svo sem við bæði frumvörpin. Þá virðist þetta einnig tryggja að lánastofnanir fái gert upp eins fljótt og hægt er þar sem fyrst verður greitt af biðreikningum sem fráfarandi stjórnvöld beittu sér fyrir í þágu heimilanna til að leiðrétta greiðslubyrði þeirra. Við þessa aðgerð mun greiðslubyrði heimilanna ekki lækka fyrr en biðreikningur er að fullu uppgerður. Mér finnst það vera nokkuð mikilvægt atriði en ég er ekki viss um að allir átti sig á því að byrjað verður á endanum sem fólkið ætlaði að borga kannski eftir 30–40 ár, en það er mikilvægt að fólk átti sig á því til að gera sér ekki vonir um að ráðstöfunartekjur aukist strax við þessar aðgerðir.

Vanskil verða greidd upp áður en kemur að niðurgreiðslu höfuðstóls, ógreiddir vextir verða greiddir upp áður en kemur að innborgun á höfuðstól. Fjármálastofnanir fá því forgang að útgreiðslum úr ríkissjóði áður en kemur að því að greiða niður höfuðstól húsnæðisskulda. Þannig munu heimili sem nýttu sér greiðslujöfnun ekki njóta aukinna ráðstöfunartekna vegna aðgerðanna strax eins og búist var við, en um 60% heimila sem eiga skuldir vegna íbúðakaupa nýttu sér þá leið.

Síðan lítum við svo á að vandamálum sé varpað inn í framtíðina með aðgerðunum sem boðaðar eru í því frumvarpi sem við ræðum hér. Aðgerðirnar geta haft áhrif á kynslóðareikninginn þar sem ríkissjóður og sveitarfélög fá ekki þær tekjur af séreignarsparnaði sem gera mátti ráð fyrir. Að sama skapi gætu lægri lífeyrisgreiðslur til lífeyrisþega úr séreignarsjóðum aukið gjöld lífeyristrygginga í framtíðinni. Þau útgjöld þyrfti ríkissjóður að fjármagna og vandi ríkissjóðs vegna skuldbindinga sem á hann falla í framtíðinni er ærinn. Þar nægir að nefna B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins auk þess sem vandi A-deildar er mikill. Að mati minni hlutans er ekki á þau vandamál bætandi.

Frá hruni hafa aðgerðir stjórnvalda miðað að því að leysa úr greiðsluvanda fólks. Niðurgreiðslan gerir það ekki nema að vissu marki þar sem stór hluti markhópsins samanstendur af fólki í skuldavanda, þ.e. fólki sem skuldar mikið en getur auðveldlega staðið í skilum. Ekki er víst að aðgerðin hjálpi þeim sem eiga við mikinn greiðsluvanda að glíma. Reyndar bendir allt til þess að aðgerðirnar komi ekki til móts við það fólk.

Líklegt er að fólk í greiðsluvanda lendi í enn frekari vanda þar sem aukið eyðslurými þeirra sem fá mest út úr millifærslunni mun að öllum líkindum leiða til verðbólgu sem eykur greiðslubyrði og erfiðleika þeirra sem eru nú þegar í vanda. Stór hluti landsmanna mun ekki njóta ávinnings af þessum aðgerðum, ég held að það sé algerlega ljóst og óumdeilt. Þá má benda á að lífeyrisþegar sem ekki hafa neinar launatekjur eiga þess ekki kost að geta lagt fyrir þar sem iðgjald er ekki greitt af lífeyri. Tæplega 30% örorkulífeyrisþega eru með einhverjar launatekjur. Það finnst mér að menn verði að staldra við þegar verið er að meta þessar aðgerðir.

Að mati minni hlutans er umhugsunarvert hvað leigjendur bera skarðan hlut frá borði. Leigjendur geta vissulega nýtt sér séreignarsparnaðarúrræðið en þá þurfa þeir að hyggja á fasteignakaup fyrir árið 2019. Ljóst er að það hvorki hentar öllum að kaupa eigið húsnæði né getur það verið skynsamlegt að beina öllum í séreignarstefnu sem rekin hefur verið hér á landi um áratugaskeið. Ekki hefur verið hægt að skilja málflutning stjórnvalda á annan hátt en þann að þau vilji að leigumarkaður eigi að vera virkt úrræði fyrir þá sem ekki geta eða vilja fjárfesta í eigin húsnæði og er nú verið að móta stefnu í þeim málum. Það skýtur því skökku við að á sama tíma fari stjórnvöld í úrræði sem miða að því að ýta undir séreignarstefnuna en geri ekkert fyrir þá sem hyggjast vera áfram á leigumarkaði.

Minni hlutinn telur að leigjendur ættu að geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræðið til lækkunar á húsnæðiskostnaði án þess að í því felist sú kvöð að þurfa að kaupa fasteign fyrir ákveðinn tíma. Þann sparnað sem úrræðið býður upp á ætti að mega nýta t.d. til að lækka greiðslubyrði láns í einhvern tíma eða til greiðslu tryggingagjalds sem algengt er að leigjendur þurfi að reiða fram.

Að mati umboðsmanns skuldara eru skjólstæðingar hans ekki sá hópur sem er best til þess fallinn að nýta sér þau úrræði sem frumvarpið ber með sér. Mér finnst það vera alvarlegt mál, virðulegi forseti. Það segir nú ansi margt um andann í þessum aðgerðum.

Í frumvarpinu er tekið dæmi um fjölskyldu með 800.000 kr. í laun á mánuði og með 4% iðgjaldi fjölskyldunnar í séreignarsjóð og 2% mótframlagi launagreiðanda geti fjölskyldan nýtt skattafslátt frumvarpsins að fullu. Að jafnaði eru launatekjur skjólstæðinga umboðsmanns skuldara lægri en 800.000 kr. og síðan er komin fram breytingartillaga frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem hækkar viðmiðið í 750 þús. kr.

Íbúðalánasjóður. Komið hefur fram í umræðunni að tjónið sem fellur til vegna aðgerðanna á Íbúðalánasjóð er heilmikið og mun auðvitað lenda beint á ríkissjóði þannig að það verður að horfa á þessar tölur allar saman þegar meta á kostnað ríkissjóðs vegna aðgerðanna. Það er ekki bara skattafsláttur í því frumvarpi sem hér um ræðir heldur mun það hafa afleiðingar þegar niðurgreiðslan á sér stað. Fyrir liggur að sveitarfélögin taka á sig tekjuskerðingu sem ekki verður bætt.

Minni hluti hv. fjárlaganefndar vildi benda á þessi atriði sem hún bað hv. efnahags- og viðskiptanefnd að fara vel yfir og ég á ekki von á öðru en að nefndin hafi gert það.

Virðulegur forseti. Ég hef lagt fram breytingartillögu um breytt viðmið vegna barnabóta og ég vil gera grein fyrir þeirri tillögu hér og nýta þann tíma sem ég á afgangs í það.

Eitt af forgangsmálum í fjárlögum fyrir árið 2013 var að hækka barnabætur verulega. Reiknireglu um tekjur og barnafjölda var breytt þannig að mun fleiri nutu bótanna en áður var. Allar greiningar á greiðsluvanda heimila hafa leitt í ljós að hann er mestur hjá barnafjölskyldum, bæði barnafjölskyldum sem er skuldugar vegna húsnæðiskaupa en einnig þeim sem ekki hafa keypt sér húsnæði. Besta leiðin til að mæta þessum vanda með almennum hætti er að hækka barnabætur. Þær þyrfti að hækka enn frekar á næstu árum. Það er því afar mikilvægt að barnabætur verði ekki skertar frá því sem nú er og síðan verði sett í forgang að finna leiðir til að hækka þær á næstu árum.

Í síðustu fjárlögum voru einnig stigin skref til að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og samþykkt ályktun um að lengja það í 12 mánuði í áföngum. Markmiðið er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Með lengingu fæðingarorlofs eru aðstæður barnafjölskyldna bættar, en þau áform dró hæstv. núverandi ríkisstjórn til baka þannig að þau ná ekki fram að ganga, a.m.k. ekki í bili.

Ein af slæmum aukaverkunum þess er að barnafjölskyldur ná ekki endum saman er að þær spara tannlækningar við fjölskylduna. Tímamótasamningur um fríar tannlækningar barna var eitt af síðustu verkum fyrri ríkisstjórnar. Þar fara saman bætt tannheilsa barna og bætt kjör heimila. Það var sem sagt forgangsmál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að bæta hag barna um leið og færi gafst. (Gripið fram í.) Í þá átt voru tekin ákveðin skref en það þarf að gera betur og það þarf að halda áfram á þeirri braut. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd þarf að taka sig á hvað þetta varðar.

Á Íslandi jókst hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna um 2,8% á árunum 2008–2012. Svo segir í nýlegri skýrslu Barnaheilla og eru um 16% barna á Íslandi í þeim hópi. Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð hefur fátækt og ójöfnuður barna á Íslandi aukist frá hruni. Mörg börn búa við óviðunandi aðstæður hvað varðar húsnæði og er húsnæðiskostnaður mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátækar heldur einnig afleiðing. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fátæktin flyst á milli kynslóða.

Vanda láglaunafólks mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og þá mest til þeirra sem búa við erfiðastar aðstæður. Þar er stærsti hópurinn barnafjölskyldur sem ekki eiga húsnæði en verja of stórum hluta launa sinna til húsaleigu. Sá hópur fær ekki svokallaða skuldaleiðréttingu hægri stjórnarinnar enda skulda þau ekki verðtryggð húsnæðislán. Þær fjölskyldur eru ekki heldur með þær tekjur að þær eigi möguleika á að njóta fulls tilboðs hægri stjórnarinnar um skattafslátt á séreignarsparnað upp í 500 þús. á ári, hvað þá upp á 750 þús. kr., eins og meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar leggur til. Í stað þess að auka stuðning við barnafjölskyldur er ríkisstjórnin í raun að lækka barnabætur þegar allar greiningar sýna að það eru barnafjölskyldurnar sem eru í mestum vanda og fátækum börnum fer fjölgandi. Í fylgiriti fjárlagafrumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Barnabætur hafa hækkað verulega á undanförnum árum, síðast með tæplega 24% hækkun í fjárlögum 2013 þegar framlag með hverju barni var hækkað og sömuleiðis mörk skerðingar vegna tekna. Heildarútgjöld vegna barnabóta eru áætluð 10,2 milljarðar kr. árið 2014 en voru tæpir 7,5 milljarðar kr. árið 2012.“ Tekið er dæmi frá 2007 og 2012: „Meðalbarnabætur hafa hækkað úr 139 þús. kr. árið 2009 í 178 þús. kr. 2013. Að standa vörð um nýlegar hækkanir barnabóta er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að styðja dyggilega við bakið á barnafjölskyldum.“

Þetta stendur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þessi texti er til þess fallinn að afvegaleiða lesendur. Þar segir: „Heildarútgjöld vegna barnabóta eru áætlaðir 10,2 milljarðar árið 2014 en voru tæpir 7,5 milljarðar kr. árið 2012.“

Af hverju er upphæð sem samþykkt var að verja til barnabóta í fjárlögum 2013 ekki nefnd í texta fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2014? Kannski vegna þess að upphæðin sem Alþingi samþykkti í fjárlögum 2013 var 10,762 milljarðar, en hægri stjórnin vill með framsetningu sinni láta líta svo út að bæturnar verði ekki skornar niður frá árinu 2013, en í raun er það svo því að öll viðmiðun er fryst. Það er ekki verðbætt og launaviðmið er fryst, launaviðmið er ekki hækkað þótt ljóst hafi verið að laun hækkuðu m.a. 1. febrúar 2013 en úthlutunin er miðuð við laun ársins 2013.

Alþingi hefur samþykkt að verja 10,2 milljörðum kr. til barnabóta á árinu 2014, þ.e. 562 millj. kr. lægri upphæð en samþykkt var í fjárlögum 2013. Barnabæturnar sem úthlutað var í fyrra og gengu til barnafjölskyldna, voru alls 10,450 milljarðar kr. og 262 millj. kr. voru felldar niður í fjáraukalögum 2013. Krónutölur í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru þá þær sömu fyrir árin 2013 og 2014, eins og ég sagði áðan.

Þann 1. febrúar var fyrsta úthlutun barnabóta árið 2014 alls 2,395 milljarðar kr. Á sama tíma á síðasta ári var úthlutunin 2,510 milljarðar kr. Því má ljóst vera að þessir 10,2 milljarðar sem samþykkt var að verja til barnabóta í ár munu ekki gera það að fullu nema viðmiðunarupphæðum í lögum verði breytt. Með breytingartillögu minni á þskj. 1073 er lagt til að upphæð með hverju barni undir 7 ára hækki um 20% og aðrar viðmiðunarupphæðir vegna barna hækki um 5%. Ég legg til að þessar hækkanir komi til framkvæmda við næstu úthlutun sem verður 1. ágúst 2014. Með breytingunum munu hækkanirnar skila sér til þeirra sem lægstu launin hafa. Ekki eru gerðar tillögur að breytingum á launaviðmiðum eða skerðingarhlutföllum en augljóslega er nauðsynlegt að endurskoða allar viðmiðanir vegna ákvörðunar barnabóta við gerð fjárlaga fyrir árið 2015 og þá þarf að meta launahækkanir með kjarasamningum sem gerðir hafa verið eða verða gerðir í ár.

Ég hef ekki aðstæður til að reikna nákvæmlega út hvað þessar hækkanir kosta eða hver afgangurinn verður í krónum og aurum. Því mun ég leggja til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjalli um málið á milli umræðna og meti kostnaðinn. Um leið vona ég að þótt útreikningur nefndarinnar sýni einhverja hækkun frá samþykkti heildarupphæð barnabóta þá skoði hv. stjórnarþingmenn það sanngirnissjónarmið með jákvæðum hætti að þessi viðbót skili sér til þeirra sem eru með allra lægstu tekjurnar og flest börnin. Þær fjölskyldur eiga í mestum vanda og þurfa á aðstoð að halda en njóta ekki skuldaniðurfærslna sem hér eru til umræðu.

Breytingartillaga mín mun koma til móts við þennan hóp þótt upphæðin sé ekki ýkja há, en hún mun samt sem áður skila einhverju til þessa hóps síðari hluta ársins. Síðan geri ég ráð fyrir að breytingar verði gerðar á viðmiðum fyrir árið 2015.

Breytingartillaga mín er á þskj. 1073, eins og ég sagði áðan. Þar eru 5% hækkanir á viðmiðunum vegna barna og í stað fjárhæðarinnar 100 þús. kr. fyrir hvert barn undir 7 ára aldri er lagt til að það séu 120 þús. kr.

Þessi tillaga fær þá aðeins tvær umræður og má vera að einhver gagnrýni það. En tillagan um að verja 10,2 milljörðum til barnabóta á árinu 2014 fékk þrjár góðar umræður og samþykki Alþingis og sú breytingartillaga sem ég legg hér fram miðar aðeins að því að sá vilji Alþingis nái fram að ganga.

Einnig er hægt að draga fram í þessari umræðu að meiri hluti fjárlaganefndar lagði til að barnabætur yrðu skornar niður um 300 millj. kr. á milli umræðna. Það var skýr vilji Alþingis að fara ekki þá leið og tillagan var aldrei borin undir atkvæði, hún var dregin til baka þannig að ég held að það sé alveg ljóst að það er skýr vilji Alþingis að sú upphæð sem samþykkt var í fjárlögum gangi til barnafjölskyldna. Þess vegna vona ég að breytingartillaga mín fái góðar undirtektir og muni skila sér til barnafjölskyldna sem ekki njóta þeirrar niðurgreiðslu sem við ræðum hér vegna þess að þær eru með svo lágar tekjur og tekjuskerðingarviðmiðin eru mjög ströng þegar úthluta á barnabótum. Sú breyting sem ég legg til hér mun því ganga að mestu til þeirra sem eru með allra lægstu launin.