143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:10]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna. Eins og hún sagði sjálf er oft gott að geta rætt þessar aðgerðir svolítið saman af því að þær að tengjast auðvitað í þessum málefnum. Mig langar að spyrja hana hvað henni finnst um þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar að ákveða að leggja á bankaskatt, tekjur af honum munu renna til heimilanna við að borga niður þessa beinu niðurfellingu. Telur hún að ef farið hefði verið í það að leggja þennan bankaskatt á á síðasta kjörtímabili hefði svigrúmið jafnvel verið meira núna, ef það hefði verið meira svigrúm þá, til að koma til móts við ákveðna hópa sem fyrrverandi aðgerðir náðu ekki til, eða hefði hún ef bankaskattur hefði verið lagður á á síðasta kjörtímabili séð einhver tækifæri í því í þessum aðgerðum, að það væri eitthvert svigrúm til að koma til móts við þá hópa sem stjórnarandstöðuþingmönnum finnst vera út undan?

Á eftir mun ég spyrja hana út í það sem hún var að tala um varðandi breytingar á húsnæðisstefnu.