144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

fjölgun virkjunarkosta og kjarasamningar.

[14:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er rétt að árétta að það er ekki rétt sem hv. þingmaður hefur haldið fram í tvígang að þetta stangist á við lögbundið ferli rammaáætlunar. Það liggur fyrir, virðulegur forseti, og óþarfi að halda áfram fullyrðingum um slíkt. Hér er einfaldlega verið að leiðrétta pólitísk inngrip síðustu ríkisstjórnar í faglegt ferli, það er ekki flóknara en það. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að hér er að nokkru leyti, ekki að öllu leyti, verið að leiðrétta pólitískt inngrip síðustu ríkisstjórnar í faglegt ferli eins og Alþýðusambandið og fjölmargir aðrir bentu á á sínum tíma.

Hvað varðar hins vegar álit Samtaka ferðaþjónustunnar þá er það auðvitað mjög jákvætt og ástæða til þess að fagna því að ferðaþjónustan í landinu skuli skynja og gera sér grein fyrir mikilvægi þess að vernda náttúruna, enda er óspillt náttúra Íslands ein mesta auðlind landsins og við hljótum að vilja standa vörð um hana, m.a. (Forseti hringir.) með umhverfisvænni orkuöflun.