145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Tilefnið er mikið og verkefnið er risavaxið. Yfirskrift umræðunnar er aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga. Það sem við sjáum hér í framsöguræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra heitir á íslensku kattarþvottur. Það stendur í raun og veru mjög lítið til að gera annað en að reyna að skapa frið um mál sem er gersamlega óþolandi. Málið er svo stórt á Íslandi að sjónir heimsins beinast að okkur. Af hverju er það? Það er vegna þess að við erum heimsmethafar í fjölda aflandsfélaga. Við erum heimsmethafar í fjölda ráðherra í ríkisstjórn sem nýtt hafa sér skattaskjól. Þar á meðal er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem talar hér um aðgerðir stjórnvalda.

Það hljóta allir að sjá að þetta er skrípaleikur og ekkert annað. Það er svo hér á Íslandi að allir æðstu ráðamenn Íslands eru kolflæktir í þetta mál. Nýjast er það svo að forseti lýðveldisins er á forsíðum erlendra blaða og vefsíðum erlendra blaða. Fyrir hvað? Fyrir það að verða tvísaga um þessi mál. Fyrir það að segja eitt í dag og annað á morgun. Fyrir það að súpa hveljur yfir því hversu mikillar siðbótar sé þörf í máli hæstv. fráfarandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en vera svo sjálfur á forsíðunni nokkrum dögum síðar. Ósamkvæmni í málflutningi er náttúrlega með slíkum ólíkindum að það er ekki við það unandi með nokkru móti.

Forseti. Trúverðugleiki Íslands er í húfi. Bæði inn á við fyrir okkur sjálfum og í augum heimsins. Eins og málin standa núna er Ísland að athlægi út um allan heim. Það eru straumhvörf í íslenskri stjórnmálaumræðu, straumhvörf sem standa yfir núna. Prófið stendur yfir núna. Hvað ætlar Alþingi Íslendinga að gera? Hvernig ætlar íslenska pólitíkin að axla þá stöðu sem upp er komin? Af myndarskap, af alvöru, ekki með betri tónum, heldur með raunverulegum aðgerðum og með því að menn stígi til hliðar og komi sér út af hinum pólitíska vettvangi þegar svo augljósar kröfur koma fram sem hafa verið bornar upp í þingsal, að ráðherrar sem hafa nýtt sér skattaskjól í eigin persónulega þágu eigi að víkja. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa í lýðræðisríki og ég fullyrði að þessi staða gæti ekki verið uppi í löndunum í kringum okkur sem við viljum auðvitað alla jafna bera okkur saman við.

Það að vera með forustu hér sem hefur sjálf braskað í gegnum aflandsfélög og í gegnum skattaskjól, og þar á meðal fjölskylda forseta Íslands, grefur undan trúverðugleika landsins. En það að vera með sitt persónulega fé í aflandsfélögum í skattaskjólum þýðir að viðkomandi er með virkum hætti og fullum vilja að taka þátt í því að grafa undan velferð og innviðum eigin samfélags. Ef það er ekki tvískinnungur, ef það er ekki ótrúverðugleiki, ef það er ekki hræsni í besta falli, virðulegur forseti, þá veit ég ekki hvað það er.

Það eru straumhvörf í íslenskum stjórnmálum. Prófið stendur yfir. Og ég óttast að ef munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga er niðurstaða þess prófs, þá séum við fallin.