149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdir hans. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það að leitað var til hóps fræðimanna og lögð fyrir þá sú spurning hvort ákvæði gerða í þessum orkupakka rækjust á við stjórnarskrána og að þessum fræðimönnum ber ekki öllum saman. Allt eru þetta hinir virtustu og ágætustu fræðimenn sem hafa getið sér gott orð fyrir þekkingu sína á lögum og það eru engin sérstök tíðindi að lagamönnum beri ekki saman.

Ríkisstjórnin situr hins vegar uppi með það að tveir þessara álitsgjafa, sem með því að skrifa álit í þágu ríkisstjórnarinnar eru náttúrlega orðnir lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar, færa mjög ítarleg rök fyrir því að verulegur vafi leiki á því hvort samþykkt þessa orkupakka leiði af sér árekstur við stjórnarskrá lýðveldisins og fjalla sömuleiðis mjög ítarlega, og að einhverju leyti mun ítarlegar en gert er í öðrum álitum, um afleiðingar af samþykkt þessa orkupakka. Þar ber hæst þá niðurstöðu þeirra að erlend stofnun fái a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu auðlinda. Þeir taka sömuleiðis fram að valdframsal af því tagi sem hér er uppi sé meira en áður hefur sést síðan við gerðumst aðilar að sáttmálanum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ríkisstjórnin verður að gera betur en að bera á borð eitthvert klastur, einhvern fyrirvara sem reyndist nú gufaður upp á tímabili og leit (Forseti hringir.) hefur staðið yfir. Það verður að vinna þetta mál miklu betur en raun ber vitni.