150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:07]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við skulum hafa nokkur atriði á hreinu. Við erum í NATO og við erum með þjóðaröryggisáætlun. Utanríkisstefna Íslands er skýr og við viljum vera aðilar áfram að varnarsamstarfi við NATO og önnur vestræn ríki eins og verið hefur. Ég held að það sé ekkert umdeilt. Þetta er skýrt í þjóðaröryggisstefnu okkar.

Annað er að þegar um varnar- og öryggismál er að ræða ber að taka þau til umfjöllunar í ríkisstjórn Íslands, í þjóðaröryggisráði, hér á Alþingi og í utanríkismálanefnd. Við vitum að enginn smellir fingri til að redda fullt af störfum, redda einhverjum milljörðum frá NATO vegna þess að atvinnuástandið er ekki gott um þessar mundir. Ég tek undir með þeim sem það hafa sagt í dag að mér finnst ekki smekklegt og ekki rétt að blanda þessu saman. Sú sem hér stendur og Framsóknarflokkurinn hefur alltaf stutt og verið aðili að mótun utanríkisstefnu Íslands og þar á hefur engin breyting orðið.

Ég tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, mér finnst t.d. rétt að taka þessa umræðu til að byrja með í þjóðaröryggisráði og taka uppbygginguna inn í áhættumatið sem verið er að vinna núna. Mér finnst ósanngjarnt — og ætla að koma inn á það í seinni ræðu í dag vegna þess að þetta er afar stuttur tími til að taka svona mikilvægt mál fyrir — þegar ákveðnir þingmenn fara um og saka sveitarstjórnir á Suðurnesjum um áhugaleysi á framkvæmdum við Helguvík og á svæði NATO. Um er að ræða viðhald á mannvirkjum sem þarf að fara í. Þar er ekkert áhugaleysi að finna, það veit ég, en sveitarstjórnir taka ekki ákvarðanir í utanríkis- og varnarmálum Íslands. Það er alveg ljóst.