150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Í hvaða samhengi eigum við að ræða þetta mál? Suðurnesin hafa gengið í gegnum síendurtekið erfitt atvinnuástand eftir að herinn fór eftir hrun og nú með veirufaraldrinum þegar atvinnuleysi á svæðinu er að nálgast 30%, tölu sem hefur ekki sést hér á landi síðan á fjórða áratug síðustu aldar. Við erum í varnarsamstarfi í Atlantshafsbandalaginu og höfum verið í því samstarfi í 70 ár. Eigum við að ræða þetta mál út frá því hverjir það eru sem fara út í þessar framkvæmdir, samstarfsþjóðir okkar í NATO, eða eigum við að ræða málið út frá því að framkvæmdir, t.d. í stórskipahöfn í Helguvík, eru mikilvæg innspýting í gaddfreðið atvinnulífið á Suðurnesjum og að auki til stórra bóta fyrir höfnina og möguleika henni tengdri?

Það liggur fyrir að málið var rætt í apríl í ráðherranefnd um ríkisfjármál þar sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti hugmyndir um ýmsar frekari framkvæmdir sem bandalagsþjóðir okkar í NATO væru hugsanlega tilbúnar að fara í á Suðurnesjum, m.a. hafnarframkvæmdir í Helguvík og fleiri stórar framkvæmdir. Hafa heyrst tölur upp á 12–18 milljarða kr.

Samstarfsflokkur hæstv. ráðherra í ríkisstjórn virðist hafa afgreitt málið sem framkvæmdir að hernaðaruppbyggingu og virðist þar með hafa sett fót fyrir dyr hæstv. utanríkisráðherra svo að hann hafi hvorki komist lönd né strönd. Eðlilegt er að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvers vegna nákvæmlega fallið hafi verið frá þeim hugmyndum hans um uppbyggingu á Suðurnesjum. Einnig virðist vera óljóst hvort og í hvaða formi málið kom inn á borð ríkisstjórnar og hversu formlegar þessar hugmyndir hafi verið og framkvæmdaáætlanir. Á maður að trúa því að hér hafi verið um að ræða óljósar hugmyndir hæstv. ráðherra? Alþingi og Suðurnesjamenn eiga kröfu á því að málið verði að fullu upplýst. Einnig þarf að svara því hvers vegna ekki hafi verið talin ástæða til að málið færi fyrir þjóðaröryggisráð. Þar sitja þó tveir þingmenn í Suðurkjördæmi. Hæstv. ráðherra verður að skýra það út hvers vegna þetta mál dagar uppi hjá stjórnvöldum eða á að trúa því, (Forseti hringir.) herra forseti, að hér ráði kaldastríðspólitík samstarfsflokks hæstv. utanríkisráðherra í ríkisstjórninni, að sá ágæti forystuflokkur ríkisstjórnarinnar sé enn þá í sinni Keflavíkurgöngu?