150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er hið besta frumvarp en eiginlega, myndi ég segja, óskiljanlegt að það skuli þurfa að koma fram. Það sýnir í hnotskurn þær hindranir sem virðast alltaf koma upp í málefnum fatlaðs fólks, og þá sérstaklega í sambandi við notendastýrða persónulega aðstoð. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég næ því ekki að það þurfi að fara að setja þetta notendaráð í reglugerð. Ég myndi segja, og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér, að hægt væri að hafa þetta þannig að annaðhvort yrði haft samráð við notendaráð ef það er til staðar en annars bara við sveitarfélagið. Þannig værum við ekkert að flækja málið meira. Ef þetta er það eina sem stoppar af nauðsynlega þjónustu til þeirra sem á þurfa að halda þá er þetta bara mjög einfalt. Ég held að það væri miklu betra að hafa það í þessum lögum og þá þyrfti ekkert að vera að flækja hlutina of mikið. Ég myndi líka vilja spyrja ráðherra í leiðinni: Er ekki kominn tími á að löggilda viðaukann og lögfesta hreinlega samninginn fyrir fatlað fólk eins og samning Sameinuðu þjóðanna? Þá verður ríkið líka að standa sig betur í því að ryðja úr vegi öllum þessum hindrunum, þannig að fatlað fólk fái sinn rétt.