150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér dettur ekki í hug í eina sekúndu að nokkur sé að reyna að forðast samráð við fatlað fólk. Vandinn er miklu frekar að það hefur gleymst. Margir hópar sem verða út undan gleymast einfaldlega. Það hefur svo geigvænlega mikil áhrif á hópinn þegar margar stofnanir eða aðilar í samfélaginu gleyma þeim á sama tíma.

Ég er ekki mótfallinn frumvarpinu. Mér finnst það rökrétt skref miðað við forsendurnar sem gefnar eru í frumvarpinu sjálfu. Ég hjó bara eftir því að mér þótti samráðskaflinn gefa tilefni til frekari spurninga, sem ég get þó úr þessu einungis skilið eftir handa hv. velferðarnefnd, sem ég geri ráð fyrir að taki við málinu.

En þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að skila til tilheyrandi nefndar drögum að reglugerð sem kemur úr frumvarpinu. Það sem mér finnst í raun standa eftir er spurningin um hvernig þessu verði háttað og þá sér í lagi þegar kemur að því að afla samráðs hagsmunasamtaka fatlaðs fólks við störf nefndarinnar við meðferð málsins.