150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við þessari spurningu er einfaldlega það að um er að ræða almenna aðgerð. Vissulega er hægt að framselja hana, sem kann að nýtast einhverjum en kannski ekki öllum. Það þarf líka að horfa á þetta í samhengi við aðrar aðgerðir. Ég er ekki að halda því fram að allir muni nýta þetta með sambærilegum hætti eða eyða jafn miklum peningum í fríið. Þetta er almenn aðgerð og við erum ekki að skilgreina hana fyrir sértæka hópa að öðru leyti en því að einstaklingur þarf að vera fjárráða. Það kann að vera að þeir sem hafa meira á milli handanna nýti 5.000 kr. en eyði síðan töluvert hærri fjárhæð en þeir sem hafa minna á milli handanna. Það kann líka að vera að þeir sem eru með meira á milli handanna framselji frekar, eða hvernig sem það kann að vera. Ég ætla ekki að reyna að lesa í hegðun allra sem fá þetta gjafabréf. (Forseti hringir.) Svarið er bara að þetta er almenn aðgerð og ekki sértæk. Það eru margar aðrar aðgerðir sem við höfum verið að fara í sem eru sértækar en ekki þessi.