150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ráðherra veit að ég hef kynnt tillögu fyrir atvinnuveganefnd sem losar um þessa peninga strax og leysir lausafjárvanda þessara fyrirtækja. Ef þau færu hvort eð er í þrot eða gjaldþrot, sem er það sem frumvarp ráðherra um pakkaferðir er að reyna að stöðva, fá þau, án þess að fara í rekstrarþrot eða gjaldþrot, strax aðgang að þessu tryggingarfé og vátryggingafélögin tapa ekki út af því að þau hefðu hvort eð er þurft að greiða það út til þess að endurgreiða neytendum. Það er á boðstólum lausn til þess að leysa þessa peninga út strax þannig að fólk geti strax farið að kaupa sér ferðir í sumar hér innan lands. Ef ráðherra gæti sagt okkur hver heildartalan er í þessum kröfum erlendra ferðamanna og innlendra, svo að við höfum einhverja hugmynd um það.

Á léttu nótunum: Ég fór að hugsa þegar ég sá að þessi ávísun á líka við um veitingastaði og svoleiðis. Væri hægt að nota þetta eins og, hvað á ég að segja, bjórsjóð, til að fara á barinn og kaupa nokkra bjóra? (Forseti hringir.) Þegar ég vil gera vel við mig fer ég á Vitabar og kaupi mér steik og bjór. Það er vel undir 5.000 kr. þannig að ég gæti nýtt það þannig og myndi eflaust gera það.