150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér finnst erfitt að spá fyrir um hvað verði gert. En eins og þingmaðurinn sagði var framfærsla rædd töluvert mikið í nefndinni en kannski ekki nægilega mikið að mati hans. Ég hef lesið nefndarálit þingmannsins og þar er ágætlega farið yfir áhyggjur hans. En eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta þá veltum við þessu fyrir okkur og vorum sammála um að við vildum halda í sveigjanleikann með því að vera ekki með einhverja fasta krónutölu. En við áréttuðum sérstaklega að framfærslan yrði að vera þannig að fólk gæti lifað af henni. Ég held að það sé atriði sem sjóðstjórnin tekur ákvörðun um þegar þar að kemur og svo er þetta kannski eitthvað sem verður tekið fyrir við endurskoðun laganna eftir þrjú ár þegar við sjáum betur hverjar forsendurnar eru og hvernig þetta nýja kerfi reynist og hver kostnaðurinn við það er.