150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir ræðuna. Málið er mjög umfangsmikið, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, og flókið, svolítið tyrfið, skulum við segja. En ég varð þess heiðurs aðnjótandi að sitja sem varamaður fyrir hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson á einum þeirra funda þar sem verið var að fjalla um þetta umfangsmikla mál. Það sem mér fannst áhugavert var að allir gestir komu með mismunandi athugasemdir, sem sýnir bara hvað þetta er flókið og umfangsmikið mál. Það sem sat hvað mest í mér var þegar fulltrúi Öryrkjabandalagsins kom og talaði um að fólk ætti ekki að þurfa að endurgreiða lán ef það lenti í því óláni að lenda í slysi sem gerði það að verkum að það gæti ekki nýtt sér nám sitt. (Forseti hringir.) Ég vil byrja á því að spyrja, fyrst tíminn er aðeins öðruvísi en klukkan gaf til kynna (Forseti hringir.) í upphafi, hvort eitthvað hafi verið gert til að bregðast við þessum athugasemdum Öryrkjabandalagsins.