150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég fletti upp á 13. gr. þá stendur þar nákvæmlega, með leyfi forseta:

„Veita má undanþágu frá kröfum um lágmarksnámsframvindu sé lánþega það vandkvæðum bundið að mati sjóðstjórnar að stunda nám skv. 1. mgr. vegna örorku, lesblindu, sértækra námsörðugleika, alvarlegra veikinda, barneigna eða vegna þess að tímabundið stendur ekki til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða af öðrum sambærilegum ástæðum.“

Þarna er ekki sérstaklega talað um flóttamenn og ég þekki ekki hvort þessari umræðu hafi verið lokið og málið afgreitt svona fyrir mína tíð í nefndinni þannig að ég þori ekki alveg að fara með það. En miðað við þau gögn sem fyrir liggja, minnihlutaálit og breytingartillögur minni hluta, tel ég að umræða muni halda áfram í nefndinni á milli umræðna þannig að þetta verði eitt af því sem þar verður rætt. Svo munum við komast að einhverri niðurstöðu. Hver hún verður veit ég ekki.