150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:25]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð frekar oft var við það við meðferð þingsins á hinum ýmsu málum að fram kemur skilningur einhvers aðila, ráðuneytis eða jafnvel fagaðila, sem mér finnst ekki stemma við textann sem ég á við hverju sinni. Það fannst mér vera tilfellið núna. Í 9. gr. frumvarpsins, minnir mig, eru tilgreindir 3.–6. töluliður um þá einstaklinga sem samkvæmt 10. gr. eru undanþegnir þessu. En þegar ég las yfir ákvæðið, með hliðsjón af því sem við fengum að vita á þessum fundi, sá ég ekki að þetta væri skýrt. Því lagði ég fram breytingartillögu.

Sömuleiðis mætti bæta því við að að mínu mati er engin ástæða til að hafa 3.–6. tölulið inni ef 1.–2. töluliðir 9. gr. eru þar hvort sem er. Fyrst vakin er athygli á þessu finnst mér reyndar almennt við á Alþingi frekar gjörn á að láta skýringar duga sem strangt til tekið eru eflaust réttar en það kemur ekki í ljós fyrr en eftir mjög langan tíma og eftir mikil dómsmál. Við stólum stundum á að fólkið sem les lögin hafi getu til að láta vaða, reyna á kerfið, og ef eitthvað fer úrskeiðis getur tekið mörg ár að fara í gegnum dómskerfið til að fá leiðréttingu á því. Það var það sama sem ég hugsaði þarna. Fólk sem vill fá námslán er ekki í stöðu til að láta reyna á þetta. Þannig að ef túlkunin yrði öðruvísi hjá Menntasjóði eða ef námsmaðurinn teldi sig ekki hafa þennan rétt samkvæmt lögunum væri einfaldast að breyta þessu með því að breyta 3.–6. tölulið í undanþáguákvæðinu í 10. gr. þannig að það yrði 1.–6. töluliður og myndi þar af leiðandi með óyggjandi hætti eiga við um Íslendinga og aðra Norðurlandabúa. Með öðrum orðum, þetta er lagfæring sem ég tel einungis til bóta (Forseti hringir.) og ekki geta skemmt fyrir þeirri túlkun sem hv. þingmaður bendir á.