150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil samt ítreka það sem annar hluti þessarar breytingartillögu kveður á um. Ef ég skil hv. þingmann rétt þá telur hann að viðkomandi þurfi að koma heim eftir þriggja ára nám til að uppfylla búsetuskilyrðin, þ.e. geti ekki haldið áfram í meistaranámi erlendis. Ég skildi það ekki með þeim hætti. Ég tel að þetta sé nokkuð sem við þurfum að fá nánari skýringar á þannig að við séum öll á sömu blaðsíðu ef við skiljum þetta ekki nákvæmlega eins. Fyrir mér er þetta mjög skýrt. En fyrst að við fáum málið inn aftur held ég að það sé einboðið að við fáum við því svör.

Síðan langar mig að tala um það sem snýr að framfærslustyrkjum vegna barna. Ég verð að segja að þetta minnti mig svolítið á frumvarp menntamálaráðherra um að allir fengju styrk óháð því hvort þeir þyrftu á honum að halda eða ekki. Ef ég skil hv. þingmann rétt leggur hann til að þó að maður þurfi ekki á láni að halda en getur verið í skóla ætti maður samt að fá styrk ef maður á barn. Og hvort sem maður uppfyllir kröfur um námsframvindu eða hvað þá er það bara styrkjakerfi fyrir utan námslánakerfið. 30% styrkurinn byggist á því að maður taki námslán og fái þar af leiðandi bæði niðurfellingu og svo þennan viðbótarstyrk vegna þess að maður þurfi á honum að halda. Mér finnst horft fram hjá því að þá setjum við kannski ekkert endilega fjármuni til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Það snýr svolítið að forgangsröðun, en við horfum kannski ólíkt á málið hvað þetta varðar af því að framfærsla vegna barna er í öðrum kerfum sem við höfum, sem geta væntanlega tekið á því og gera það. Ef viðkomandi er námsmaður geri ég ekki ráð fyrir því að hann sé endilega mjög hátt launaður ef hann er í vinnu, þótt hann geti verið það. (Forseti hringir.) En finnst þingmanninum eðlilegt að rekið sé sérstakt framfærslustyrktarkerfi barna til hliðar við þetta kerfi? Því að það er jú það sem þetta er.