150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður telur að hægt sé að skoða þetta atriði milli 2. og 3. umr. Ég tuðaði svolítið yfir því áðan. En mér finnst sjálfsagt að skoða betur hvort skilningur hv. þingmanns sé kannski rök gegn tillögunni. En ég vil samt segja að ég er ekki þeirrar skoðunar almennt, og kannski er það þar sem við hv. þingmaður erum ekki sammála, að námsstyrkir og námsstuðningur eigi einungis að vera til þeirra sem mest þurfa á að halda. Fyrir mér er það spurning um hversu mikið við getum fjárfest í fólki, samanber það sem ég sagði áðan um að ég liti ekki á þessa hluti sem einhvers konar ölmusu eða aðstoð við fátækt fólk, alla vega ekki eingöngu, heldur sem fjárfestingu í framtíðinni, fjárfestingu samfélagsins í fólki, í raun og veru alveg óháð því í hvaða stöðu það er. En vegna þess að við erum með þannig samfélag, blandað hagkerfi og sómakennd almennt, vil ég meina, þá hjálpum við auðvitað sérstaklega þeim sem mest þurfa á því að halda, en ekki einungis.

Vel má vera að þetta myndi búa til einhvers konar tvöfalt kerfi sem þyrfti þá að útfæra öðruvísi. Það má vel vera að hægt væri að forgangsraða fjármagninu með öðrum hætti. En ég er ekkert feiminn við að setja á fót stuðningskerfi fyrir námsmenn sem byggir á öðru en lánum. Hvort það væri á þeim forsendum að viðkomandi ætti barn eða ekki skiptir ekki öllu. Ég væri til í að íhuga slíkar aðgerðir, jafnvel þótt við værum að tala um einstaklinga sem ekki ættu börn. Ef um væri að ræða einstaklinga sem ættu börn en gætu hugsað sér að fara í nám ef þeir fengju styrk þá þætti mér það góð saga og góð fjárfesting ef við myndum hleypa því fólki í nám, hygg ég. En ég fagna því að við getum skoðað þetta betur á milli 2. og 3. umr. Vonandi eru til tölur sem sýna vel fram á þetta. Ég hefði gagn og gaman af því að fræðast betur um hvernig þetta kerfi yrði þá tvöfalt. Kannski þarf það ekki að vera tvöfalt, kannski er hægt að ná sama markmiði án þess að búa til tvöfalt kerfi. Ég er algerlega opinn fyrir því.

Ég vil ítreka að ég er ekki þeirrar skoðunar að styrkur og stuðningur til náms eigi einungis að vera fyrir þá sem mest þurfa á því að halda þótt það eigi vitaskuld líka að vera fyrir þá.