150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni að mennt er svo sannarlega máttur. Ég sé líka á nefndaráliti 2. minni hluta að jafnaðarmenn eru tiltölulega ánægðir með málið eins og það lítur út í dag, enda er um gríðarlegt tímamótamál að ræða og miklar umbætur fyrir námsmenn. Þó eru nokkur atriði sem þingmaðurinn bendir á sem hann vill breyta eða er jafnvel ósammála í grunninn. Ég vildi koma inn á nokkur atriði. Þingmanninum varð tíðrætt um félagslegt hlutverk sjóðsins og það er alveg skýrt í frumvarpinu að það er ein af meginstoðum frumvarpsins. Á sama tíma erum við að setja upp tvískipt kerfi, annars vegar lánahlutann, sem á að vera sjálfbær, og hins vegar styrkjakerfið, sem ríkið fjármagnar. Lánahlutinn á að vera sjálfbær og, ef við tökum t.d. 11. gr., ef lánþegar standa ekki í skilum þýðir það þar af leiðandi hærri kostnað fyrir aðra lánþega. Ég vil einnig benda þingmanninum á, hann veit það kannski nú þegar, það kemur fram í gögnum málsins, að slíkt ákvæði er nú þegar í núgildandi lögum. Í sérstökum undantekningartilfellum þurfa aðilar sem eru t.d. gjaldþrota eða á vanskilaskrá að leggja fram sérstakar ábyrgðir. Það er í núgildandi lögum.

Annað varðandi 19. gr., fólk á Norðurlöndunum byrjar að greiða ári síðar eða jafnvel fyrr og sú breyting, að stytta þetta niður í eitt ár, mun lækka greiðslubyrði lántakenda. Ég held að það sé tvímælalaust til bóta en hefði áhuga á að heyra hugleiðingar þingmannsins frekar um það. En það er margt sem liggur hér undir.