154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta en ég tek alveg undir með hv. þingmanni að auðvitað gengur einstaklingum misjafnlega vel að læra tungumál og það þarf að hafa það í huga þegar kennslan er annars vegar. Eins og ég nefndi hérna áðan þá kom t.d. fram í mínu ágæta spjalli við fræðsluaðila að þessi hópaskipting, bara hún skiptir máli. Það skiptir máli hvernig hópurinn er samsettur þannig að allir fái sem mest út úr kennslunni hverju sinni. Það er mikilvægt að hafa í huga. Það er líka verðugt að hugsa um hvort við getum tekið upp á einhverjum nýjungum í íslenskukennslu. Hér í gær í þingsal var verið að ræða um gervigreind og ég sótti fyrir ekki svo löngu ágætan fyrirlestur um gervigreind og þar kom m.a. fram, sem ég hafði ekki hugmynd um, að gervigreind gæti nýst vel við tungumálakennslu og það finnst mér mjög áhugavert þannig að við eigum að sjálfsögðu að vera opin fyrir nýjungum á þessu sviði. En umfram allt þá þurfa stjórnvöld að hafa þessa hvata, þessir hvatar þurfa að vera til staðar vegna þess að ef þeir eru ekki til staðar, eins og ég nefndi í minni ræðu, þá er ekki mikill áhugi hjá fólki, ef það má orða það þannig, ef það sér ekki þörfina fyrir að læra íslensku. Það er það sem skiptir mjög miklu máli. Það er hlutverk stjórnvalda að búa til hvata og það er að sjálfsögðu að finna í þessari ágætu tillögu. Hún er hvatning um að gera betur og hún er hvatning um að við stöndum okkur í því að vinna að því að vegur íslenskunnar verði sem mestur í okkar samfélagi og sérstaklega gagnvart þeim sem hafa íslensku ekki að móðurmáli.