154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:24]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Spurning mín sneri einfaldlega að því hvers vegna tekin var sú ákvörðun að breyta fyrri ráðleggingum stjórnar um að greiða í kringum 20 milljarða og það hækkað um 10 milljarða, það er bara fullkomlega eðlileg spurning. Ég átta mig alveg á því að það eru ekki eyrnamerktar sérstakar tekjur en það breytir því ekki að hér hefur orðið einhver forsendubreyting, þetta er stærsti einstaki liðurinn sem gerir það að verkum að þessar kjarasamningsbreytur skapa ekki halla. Það er ekkert óeðlilegt við að fá það hér fram hvað hafi legið að baki þessari ákvörðun þó að ég hafi, eins og ég sagði hér áðan, engar áhyggjur af stöðu Landsvirkjunar. En það breytir því ekki að auðvitað dregur þetta úr fjárfestingarsvigrúmi fyrirtækisins engu að síður.

Það sem ég er einna helst að reyna að benda hér á, forseti, er að það er ekki hægt að segja að það hafi verið plan og koma svo og biðja um fjármagn í fjárauka sem eðli málsins samkvæmt og lögum samkvæmt felur í sér ófyrirséð útgjöld. Það felur í sér að þú varst ekki með stefnu og plan um hvað þú ætlaðir að gera. Við vorum að ræða fjárlög fyrir jól þar sem var mikið á sig lagt að reyna ná 17 milljörðum í hagræðingarkröfu. Það var ekki vilji til að fjármagna sérstaklega einhverjar aðgerðir sem gætu þá farið í varasjóði eða annað vegna þess að það var vitað að það stefndi í kjarasamninga. Það er ekki hægt að fara báðum megin við verkefnið. Við sjáum nefnilega svipaða takta ef við skoðum fjármögnun kjarasamninga á tímabili fjármálaáætlunar. Ég nefni hér, forseti, að fyrst er það 10 milljarða kr. sparnaður vegna frestunar á aðgerðum vegna öryrkja, svo 5 milljarða kr. sparnaður vegna aukningar í fjármagnstekjum eldra fólks og vegna þess að færri eru að lenda á örorku. Ég velti því bara fyrir mér hvort það hafi einhver pólitísk ákvörðun raunverulega verið tekin um fjármögnun við vinnslu þessara kjarasamninga eða hvort þetta hafi fyrst og fremst snúist um að færa fjárhæðir til, treysta á einhverja framtíðarþróun og síðan er mögulega verið að horfa til arðgreiðslna hjá stökum fyrirtækjum og látið eins og það sé ekkert samhengi þar á milli. En það er líka hægt að svara því hér, forseti.