154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:14]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir góða framsögu. Mig langar í fyrra andsvarinu að spyrja aðeins út í 8. gr. frumvarpsins en þar stendur, með leyfi forseta:

„Ekki skal fjárfest í fjármálagerningum sem gefnir eru út af fyrirtækjum eða stofnunum sem stunda eða eru viðriðin starfsemi sem stangast á við góða siði eins og nánar skal tilgreint í fjárfestingarstefnunni.“

Í greinargerðinni er farið aðeins dýpra í þetta og fjallað um að ekki skuli fjárfesta í aðilum sem misnota vinnuafl eða framleiða vopn sem nýtt eru í hernaði.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað að setja inn í fjárfestingarstefnuna að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem stunda kolefnisiðnað, t.d. olíufyrirtækjum, það eru þónokkrir þjóðarsjóðir að breyta sinni fjárfestingarstefnu og tryggja að þeir séu ekki að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru að skaða loftslagið og þar af leiðandi skaða okkar ástand og þar með í rauninni auka á þær hættur að það þurfi að nýta þennan sjóð, hvort það hafi verið skoðað eða rætt eitthvað að setja einhver takmörk á þennan hluta í þessari fjárfestingarstefnu.