154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór yfir í máli mínu þá er í frumvarpinu sett fram viðmið sem stjórn setur síðan fram fjárfestingarstefnu byggða á, sem er þá samþykkt af Alþingi og ráðherra samþykkir. Það er líka fjallað um það að fjárfesting sjóðsins er að öllu leyti erlendis en ekki innan lands.

Ég vil síðan nefna að það er rétt hjá hv. þingmanni að skuldastaða okkar er rétt rúmlega 30%, sem er náttúrlega ótrúlega góð staða miðað við það sem við virtumst vera að horfa framan í hér í upphafi heimsfaraldurs þegar stefndi í að skuldir hins opinbera væru einhvers staðar á bilinu 50–60%. En vegna þess hvernig við fórum í gegnum heimsfaraldurinn og árangurs okkar í þeim efnum þá er skuldastaðan býsna góð, ríkisins rétt rúmlega 30%, hins opinbera 38 eða 39%, ef ég man rétt.

Ég nefndi það líka í framsögu minni að það verður ekki byrjað að greiða til slíks þjóðarsjóðs fyrr en við höfum náð skuldahlutfallinu vel niður fyrir 30%. Í okkar litla hagkerfi þá skiptir máli að við séum með enn lægra skuldahlutfall heldur en stærri hagkerfi, m.a. til að þola áföll. Þessi sjóður myndi hjálpa okkur við það ef áföllin yrðu stór þegar hann verður kominn á koppinn. Ég tel hins vegar algerlega rétta tímann til að fara að huga að slíku, hefja umræðuna um það með hvaða hætti og til hvers slíkur sjóður er. Ég er ósammála þingmanninum um að það sé ekki tímabært, mér finnst það tímabært, en eins og ég nefndi þá sé ég ekki ástæðu til að fara að reyna að þvinga þetta í gegn á stuttum tíma hér í vor heldur reyna að taka aftur umræðu næsta vetur.