154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:31]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Ég hefði haldið að það væri eðlilegt að það væri inni í lögunum að þessi sjóður ætti að fjárfesta erlendis en ég sé það ekki í 8. gr. varðandi fjárfestingar og út á það gengur t.d. olíusjóðurinn. Hann má alls ekki — þeir eru með annan sjóð sem má fjárfesta innan lands en olíusjóðurinn er algerlega bundinn við það að fjárfesta erlendis. Meira að segja hafa þeir lent í vandræðum ef peningar eru að streyma — fyrirtækin eru í rekstri innan lands, þannig að ég tel mikilvægt að það standi þá í lögunum og líka með skuldastöðuna, hún þarf að vera í lagi, að ná henni niður.

En varðandi að þetta sé fyrst og fremst, eins og segir hérna í frumvarpinu: Ætlunin er að koma á fót varúðarsjóði, sem sagt þjóðarsjóði, til að mæta fátíðum efnahagslegum skakkaföllum sem þjóðarbúið verður fyrir, og svo líka að fjármagnað verður með tekjum frá arði frá orkufyrirtækjum. Þá erum við fyrst og fremst að horfa á Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða er líka ríkisfyrirtæki, en er ekki rétt líka að veiðigjöldin færu hérna inn í? (Forseti hringir.) Það eru t.d. 10 milljarðar í ár sem fara í veiðigjöld sem fara beint til ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Væri þá ekki rétt að horfa á fleiri fyrirtæki en bara orkufyrirtækin sem myndu þá greiða í þennan sjóð?