154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Frumvarp til laga um Þjóðarsjóð — þetta er stórt nafn, Þjóðarsjóður. Hér er raunverulega ætlunin að koma á fót varúðarsjóði til að mæta fátíðum efnahagslegum skakkaföllum sem þjóðarbúið getur orðið fyrir, t.d. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara. Eða eins og kemur fram í 3. kafla greinargerðar þar sem þetta er talið upp: náttúruhamfarir, umhverfisslys, vistkerfisbreytingar, farsóttir og önnur áföll sem valda stórfelldu tjóni; og ætlunin er að milda það efnahagslega áfall sem þjóðin yrði fyrir af völdum slíkra atburða.

Ég tel að nafnið Þjóðarsjóður sé ekki nægilega gott. Ég myndi mæla með því að sjóðurinn yrði kallaður auðlindasjóður, auðlinda- og varúðarsjóður jafnvel, þar sem tekjur sjóðsins eiga fyrst og fremst að koma frá arði af orkufyrirtækjum. Það segir okkur mikið um það auðlindahagkerfi sem við búum í að orkuauðlindin er sennilega verðmætasta auðlind okkar Íslendinga til framtíðar. Vissulega höfum við lifað af fiskveiðiauðlindinni, gjöfulustu fiskimiðum í heimi, á undanförnum árum en við sjáum ekki fram á að við förum mikið upp fyrir 200.000 tonn af þorski. Við höfum ekki gert það í 40 ár, ekki frá því að kvótakerfið var sett á laggirnar. 40 árin þar á undan vorum við að meðaltali með 400.000 tonn. Og árangurinn af kvótakerfinu er enginn miðað við það að við erum enn í 200.000 tonnum. Á síðasta ári voru það 217.000 tonn. Ég tel að við ættum að horfa á þetta í víðara samhengi varðandi arðinn, ekki bara af orkufyrirtækjunum heldur líka veiðileyfagjald og jafnvel gjaldtöku af ferðamönnum, að þetta verði náttúruauðlindasjóður sem gæti hjálpað okkur að komast út úr auðlindahagkerfinu og inn í þekkingarhagkerfið.

Ég tel að svona sjóður ætti líka að horfa til þess að vera stöðugleikasjóður, jafnvel sparnaðarsjóður. En eins og kemur fram í greinargerðinni þá er sparnaðarsjóður talinn tengjast öldrun þjóðarinnar og þar af leiðandi fyrirsjáanlega auknum opinberum útgjöldum, bæði lífeyrisgreiðslum og gjöldum til heilbrigðismála. Ég get tekið dæmi um að norski olíusjóðurinn er lífeyrissjóður. Hann heitir Statens pensjonsfond utland, það er hið formlega heiti á sjóðnum.

Varðandi stöðugleikasjóðinn þá er það yfirleitt sjóður sem jafnar útflutningstekjur og þá einkum í hrávöruútflutningslöndum sem eru t.d. háð einni vöru, olíu, kopar eða demöntum, eins og kemur fram í greinargerðinni. Stöðugleikasjóður er því sveiflujöfnunarsjóður og við þurfum á meiri stöðugleika að halda í íslensku efnahagslífi. Í kringum 1970 brast síldin og núna brást loðnan, 2 milljörðum minna í veiðileyfagjald með tilheyrandi skakkaföllum. Við þurfum að hafa stöðugleikasjóð vegna þess að við lifum í auðlindahagkerfi og sjávarauðlindin er dyntótt þrátt fyrir alla hina vísindalegu stjórn. Ég tel því æskilegt að horft yrði á þetta í breiðu samhengi og líka út frá því sem kom fram í máli hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur þar sem horft er á innviðaskuld. Þar komum við að tilefninu og hvenær við eigum að stofna svona sjóð, þ.e. auðlinda- og varúðarsjóð, þ.e. þegar við erum búin að ná skuldum ríkissjóðs niður fyrir 30%. En ég tel að við ættum að ná skuldum ríkissjóðs niður fyrir 20%. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera í 30% en Noregur, Svíþjóð og Danmörk skulda um 30% af þjóðartekjum. Það er vegna þess að við erum miklu minni. Við erum fámenn þjóð, 400.000 manns, og þá er gríðarlega mikilvægt að við vörumst skuldir. Land eins og Eistland, þar sem 1,3 milljónir manna búa, býr við mjög litlar skuldir. Eistar vita að sem lítið hagkerfi er stórvarasamt, stórhættulegt, að skulda of mikið. Það á líka við um okkur og sérstaklega vegna þess að allt í einu gæti aflabrestur orðið. Hvað gerum við þá? Þá er mjög mikilvægt að búa við lága skuldastöðu og eiga varúðarsjóð til að hlaupa undir bagga.

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir eða sem stafa af því að stjórnvöld hafa óhjákvæmilega þurft að gera ráðstafanir til að bregðast við slíku áfalli er heimilt að veita ríkissjóði fé úr Þjóðarsjóði, sem nemur allt að helmingi eigna sjóðsins í lok næstliðins reikningsárs …“.

Hér er verið að horfa til langs tíma; að þegar sjóðurinn er virkilega kominn á legg sé hægt að taka um helminginn. Þegar við skoðum t.d. umræðuna varðandi 6. gr. í greinargerðinni þá er verið að tala um náttúruhamfarir og farsóttir sem lama mikilvæga innviði og lama atvinnulíf. Ég tel að það ætti líka að horfa til aflabrests, að aflabrestur gæti orðið til þess að heimilt væri að taka út úr þessum Þjóðarsjóði til að mæta því áfalli sem við gætum orðið fyrir af völdum aflabrests. Varðandi prósentuna, varðandi helminginn — ef við náum svona sjóði í ákveðna stærð, sem er rekstrarlega bær, þá eru t.d. í Noregi ákveðnar reglur um það hve háa prósentu megi nota til að fjármagna ríkisútgjöldin úr olíusjóðnum. Þetta eru strangar reglur og það var stórfrétt um daginn þegar núverandi ríkisstjórn ákvað að fara upp í hámark á þessum reglum til að fjármagna ríkissjóð. Þeir birta alltaf fjárlögin með og án tekna úr olíusjóðnum, sem er mjög mikilvægt til að halda við kostnaðarvitund í samfélaginu og vitund um að það sé líka verið að fjármagna ríkisreksturinn með olíusjóðnum. En við erum langt frá norska olíusjóðnum sem er stærsti fullveldissjóður heims, eða svokallaður Sovereign Fund. Sá sjóður er eiginlega rekinn af Seðlabankanum, af eignastýringu Seðlabankans upphaflega; rekinn af ríkinu, sjálfstæð eining þar inni, sem er mjög mikilvægt.

Ég vil gera athugasemd við það sem segir í 4. gr., sem heitir Rekstur og umsýsla. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn sjóðsins skal með samningi fela þar til bærum aðilum, hverjum um sig, vörslu sjóðsins, áhættustýringu og eignastýringu. Aðilarnir skulu vera óháðir hver öðrum. Sá aðili sem falið er að sinna eignastýringu skal hafa viðhlítandi sérþekkingu á erlendum fjármálamörkuðum.“

Hér á einkaaðili að reka sjóðinn, það er raunverulega verið að segja það. Stjórn Þjóðarsjóðsins á að semja við þann einkaaðila um eignastýringu á sjóðnum. Þar eru teknar ákvarðanir um það, á grundvelli fjárfestingarstefnu sem fjallað er um í 8. gr., hvernig framkvæmd stefnunnar er. Það er ekki stjórn sjóðsins sjálfs sem á að taka ákvarðanir. Þetta er svolítið eins og Bankasýslan gagnvart bönkunum. Það var ekki rétt hjá mér, þegar ég las eingöngu 8. gr., að það sé ekki bannað að fjárfesta erlendis. Það kemur fram í 2. gr. sem heitir takmarkanir í 11. gr.. Þar segir:

„Óheimilt er að fjárfesta í verðbréfum eða öðrum fjármálagerningum útgefnum í íslenskum krónum …“.

Það er komið í veg fyrir að verið sé að fjárfesta á Íslandi.

En svo að ég haldi áfram með reksturinn þá tel ég rétt að þetta sé rekið í Seðlabankanum, í deild í Seðlabankanum t.d. eða í sjálfstæðri ríkiseiningu, að þeir sjái sjálfir um eignastýringu og vörslu sjóðsins, áhættustýringu og annað slíkt. Ríkið þarf sjálft að búa yfir þekkingu varðandi eignastýringu, t.d. varðandi gjaldeyrisvaraforðann og annað slíkt, sem er hægt að nýta til að stýra svona sjóði. Það er mjög mikilvægt atriði sem kom fram hér í andsvörum. Annað sem ég vil gera athugasemdir við er varðandi stjórn sjóðsins, sem er í 3. gr. Ekki virðist gert ráð fyrir því að í 4. gr. eigi að fela þetta öðrum aðilum en ríkinu. Þar er gerð krafa um reynslu og þekkingu á fjármálamarkaði og hagfræði, ekki samningagerð við einstaklinga sem sjá um eignastýringu til dæmis. Ég ætla ekki að tala fyrir þá stétt sem ég tilheyrði áður fyrr, þ.e. lögmenn eða lögfræðinga, en ég tel mikilvægt að mikil lögfræðiþekking sé til staðar þegar komið er að samningaviðræðum við aðila úti í bæ sem eiga að sjá um Þjóðarsjóð. Þar verður hinn eiginlegi Þjóðarsjóður rekinn. Hann verður ekki rekinn af stjórn Þjóðarsjóðsins heldur verða það aðrir aðilar sem gera það. Ég tel þetta fyrirkomulag ekki rétt, það þarf alla vega að skoða það gaumgæfilega af hverju þetta ætti ekki að vera hjá ríkinu. Það er ekki verið að koma á nýrri ríkisstofnun eða neitt svoleiðis en það er miklu skynsamlegra að hafa þetta innan ríkisins og þá hjá Seðlabankanum. Þetta er grundvallaratriði varðandi Þjóðarsjóðinn. Ég tel ekki rétt að fela einhverjum aðila úti í bæ eignastýringu á gríðarlega háum fjármunum í sjóði sem ber þetta nafn. Ég tel að þetta nafn, eins og kom fram áðan, ætti að vera auðlinda- og varúðarsjóður, þ.e. ef miðað er við hver tilgangurinn er.

Varðandi fjárfestingarstefnuna og heimildir þá er fyrst og fremst talað um fjárfestingar í fjármálagerningum, fjárfestingarsjóðum, verðbréfasjóðum, verðbréfamarkaði, kauphöllum og svoleiðis. Ég get tekið dæmi: Norski olíusjóðurinn er mjög stórtækur í húsnæðiskaupum í heiminum, hann á skýjakljúfa og stórar byggingar út um víðan völl til að dreifa áhættunni. En það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt, og kemur fram í 8. gr., að setja reglur í fjármálastefnunni um að fjárfestingar séu í samræmi við góða siði, eins og skilgreint er í fjármálastefnunni.

Varðandi önnur atriði vil ég ítreka það sem kom fram hér áðan varðandi innviðaskuldina. Þegar við erum búin að ná skuldunum niður finnst mér tímabært að fara að huga að svona sjóði, fara að safna í kornhlöður af alvöru með þessum hætti. Ekki bara til þess að við fáum svo miklar tekjur af arði af orkufyrirtækjum eða fiskveiðiauðlindinni, sem við getum fengið miklu meiri arð af ef við myndum t.d. leyfa frjálsar strandveiðar — það er alveg klárt mál að við erum að tapa milljörðum króna á ári af því að við erum ekki að leyfa frjálsar strandveiðar, milljörðum og aftur milljörðum, og höfum gert undanfarin ár. Við höfum veitt 200.000 tonn í 40 ár en 60 ár þar á undan vorum við að veiða 400.000 tonn, við getum bara séð muninn á því. Í togararallinu er t.d. farið meðfram suðurströndinni á hverjum tíma, frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja, og það er kannski einn þorskur í netunum. Þetta er gert á sama tíma að ári. Það er alltaf verið að sýna fram á að það séu vísindin sem ráða, að það sé alltaf farið eftir vísindunum. Hvar voru vísindin í loðnubrestinum sem er í ár? Af hverju finnst engin loðna? Hvar eru vísindin? Hvar eru hin óskeikulu vísindi þegar við horfum til loðnustofnsins? Svo að það liggi fyrir.

Annað atriði, það eru skuldirnar og svo þessi innviðaskuld. Við getum horft á svæði eins og Vestfirði og Snæfellsnes sem eru ekki við hringveginn. Rökin sem ég hef t.d. heyrt fyrir framkvæmdum eins og Ölfusárbrú eru þau að hún sé við hringveginn. Þetta er mikilvæg framkvæmd, ég ætla ekki að setja mig upp á móti henni, en hún er við hringveginn. En Vestfirðir eru ekki við hringveginn og ekki heldur Snæfellsnes og þar er innviðaskuld sem nánast stendur í vegi fyrir því að atvinnulíf fái að blómstra þar. Og það eru ekki bara vegirnir, það er líka raforkukerfið sem býr við innviðaskuld. Það þarf að byggja þetta upp, þá eru jöfn lífskjör í landinu og þá getum við farið að hugsa um sjóð eins og þennan. Það virðist aldrei vera hægt að borga þessa innviðaskuld, annaðhvort er of mikil þensla eða góðæri svo mikið eða að það er svo mikil kreppa að við eigum ekki pening. Þessar sveiflur fram og til baka koma í veg fyrir að hægt sé að byggja upp samfélag með innviðum sem eru í samræmi við nútímakröfur um jöfn lífskjör alls staðar í landinu; þetta virðist hafa komið í veg fyrir að við höfum greitt þessa innviðaskuld. Ég vona svo sannarlega að við getum komið svona sjóði á fót með tíð og tíma en slíkur sjóður ætti ekki bara að vera varúðarsjóður vegna efnahagsáfalla eða varúðarsjóður vegna náttúruhamfara og vera fjármagnaður með greiðslum af arði af orkufyrirtækjum. Þarna eiga allar auðlindirnar að vera undir, líka sjávarauðlindin. Þetta ætti ekki einungis að vera varúðarsjóður. Besti varúðarsjóður Íslands er það að hafa lágar skuldir, hafa hagnað af ríkissjóði á hverjum tíma og vera í stakk búin til að mæta áföllum og þá með skuldsetningu þegar við skuldum lítið fyrir. Svo eigum við að sjá til þess að stöðugleikasjóður verði til svo að við getum byggt upp aðrar atvinnugreinar sem þegar er kominn vísir að, t.d. varðandi þekkingariðnað og skapandi greinar. Það er þannig sem við byggjum upp landið og það er þannig sem við sjáum til þess að hámenntað fólk flýi ekki land og verði áfram búsett á Íslandi. Það er þannig sem við eigum að horfa til framtíðar.