131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[14:06]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær undirtektir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum við þetta mál. Ég vil líka þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir það að hafa gefið sér tíma til þess að taka þátt í þessari umræðu. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. ráðherra gerir sér fulla grein fyrir alvarleika málsins.

Það er nefnilega, eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir kom inn á, talsvert af ungu fólki sem hefur hug á að sækja sér þessa menntun. Hins vegar hræða sporin og menn óttast að íslenskur kaupskipastóll sé að líða undir lok, þetta séu frumsporin. Þá mun mikilvæg þekking íslenskrar farmannastéttar hverfa og við stöndum frammi fyrir því sem eyþjóð í Norður-Atlantshafi að vera öðrum þjóðum háð í aðdrætti hingað heim. Það væri skelfileg staða, virðulegi fjármálaráðherra, ef við stæðum frammi fyrir því að við værum öðrum háð um aðdrætti til þessarar eyþjóðar. Ég vona að svo verði ekki. Ég vona, virðulegi forseti, að hér verði tekið á þessum málum eins og rétt hefur verið komið inn á. Hvað er það sem hræðir okkur við að fara í spor nágrannaþjóðanna? Hér er mjög algengt að útgerðirnar taki skip á svokallaða þurrleigu, taki skipið á leigu án áhafnar og setji Íslendinga þar um borð eins og er í þessum sjö skipum sem eru í reglubundnum siglingum og ég nefndi áðan. Auðvitað væri hægt að búa til skattalegt umhverfi gagnvart íslenskum kaupskipaútgerðum sem tæki skip á svokallaðri þurrleigu en mundu manna þau Íslendingum þannig að við værum vel samkeppnishæf.

Varðandi svo aftur alþjóðasiglingarnar er það náttúrlega miklu stærra mál. En það væri eðlilegt og sjálfsagt að stíga þetta fyrsta skref til að íslensk farmannastétt mundi ekki leggjast af og líka að ungt fólk sæi að það væru sóknarfæri í þessari starfsgrein.