131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Staða íslenska kaupskipaflotans.

[14:08]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað margs að gæta í þessu máli. Eitt af því sem ég hafði ekki tíma til að nefna í minni fyrri ræðu er að sjálfsögðu að það þarf að viðhalda og efla menntun sjómanna, gæta að því að ungt fólk hafi möguleika og sjái hag sínum borgið með því að afla sér menntunar á þessum vettvangi. En það er reyndar ekki séríslenskt fyrirbæri að það gangi misjafnlega. Það hefur orðið mikil breyting í þessu eins og allir þekkja en við þurfum að huga að þessum þætti til að tryggja eðlilega endurnýjun í greininni. Að því er vikið í umræddri skýrslu og hugsanlegu samstarfi samgönguráðuneytis, menntamálaráðuneytis og fleiri til að efla menntunarþáttinn.

Hins vegar verða menn aðeins að staldra við og gera sér grein fyrir því hvaða markmiðum menn ætli að ná. Hver er tilgangurinn með því að setja upp alþjóðlega skipaskrá, ef það er það sem menn vilja? Er það það að styrkja útgerðarfélögin? Eru þau þannig á sig komin á Íslandi að það sé einhver sérstök nauðsyn? Auðvitað ekki. Þau ganga sem betur fer mjög vel. Það getur ekki verið markmiðið. Er markmiðið þá að reyna að tryggja það að íslenskum farmönnum á þessum skipum fækki ekki? Það býst ég við að sé markmiðið, eitt af því sem við erum sammála um. En hvað er að gerast? Það eru tvö ný íslensk skip sem hafa sett sig á færeyska skipaskrá. Eru þau þá með færeyska sjómenn? Nei, þau eru með íslenska sjómenn. Mundi þá íslensk alþjóðleg kaupskipaskrá þar sem þessi skip yrðu flutt yfir hafa einhver áhrif á fjölda íslenskra farmanna á þessum skipum? Nei, vegna þess að það eru þegar Íslendingar á skipunum. Við þurfum aðeins að gá að okkur hvað það er sem við erum að tala um.

Er það þá það að við viljum fá skipaskrá til að fá umsvifin í kringum hana, lögfræðivinnuna, skráninguna, einhver skráningargjöld og þess háttar? Það má vel vera. Það gæti verið eitt markmið með þessu. En það er ekki þannig að það að taka nákvæmlega upp það sem aðrar þjóðir hafa gert leysi endilega einhver vandamál, sérstaklega ekki þegar við erum ekki búin að gera okkur grein fyrir því hvaða vandamál það eru sem við viljum fá leyst. (Forseti hringir.)