131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Geðheilbrigðisþjónusta í fangelsum.

561. mál
[14:50]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að boða þessa þjónustuaukningu en ekki síður hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að ganga eftir því og fyrir óþrjótandi áhuga hennar og baráttu fyrir málefnum fanga.

Staða fangelsismála hefur því miður um langt skeið verið okkur til vansa og við verið áminnt af alþjóðlegum eftirlitsaðilum í því efni. Ég held að það sé einmitt endurhæfingarhugsunin og úrræðin og meðferðin sem við þurfum í miklu ríkari mæli að beita í fangelsunum, til þess ekki síst að rjúfa þann vítahring sem afbrotaferillinn getur orðið ungu fólki. Til að það verði þeim ekki ævilangt hlutskipti og baggi þarf að rjúfa þann vítahring með meðferðum og með endurhæfingu fyrst og fremst.