132. löggjafarþing — 109. fundur,  26. apr. 2006.

Merkingar á erfðabreyttum matvælum.

606. mál
[13:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Reglugerðir Evrópusambandsins nr. 1829/2003, um erfðabreytt matvæli og fóður, og síðan nr. 1830/2003, um rekjanleika og merkingu erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem eru afurðir erfðabreyttra lífvera, tóku gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins 2004. Enn sem komið er hafa þær ekki verið teknar upp í EES-samninginn. Ástæðan er sú að upptaka þeirra tengist upptöku tilskipunar um sleppingu erfðabreyttra lífvera í umhverfið, sem er frá 2001. Upptaka hennar hefur dregist vegna skoðunar á þeim ákvæðum hennar sem varða tveggja stoða kerfi EES-samningsins og tengist líka svokallaðri Cartagena-bókun við samninginn um erfðabreyttar lífverur.

Nú hefur náðst samkomulag um þann þátt. En raunar á eftir að ná samkomulagi vegna sérstakrar aðlögunarbeiðni frá Liechtenstein. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir aðlögunartexta vegna reglugerða nr. 1829 og 1830, sem ég nefndi áður, að því er varðar vörur sem eru á markaði við gildistöku reglugerðanna. Drög að aðlögunartexta EFTA-ríkjanna fyrir þessar gerðir eru nú til umfjöllunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Gert er ráð fyrir því að þegar þessi mál eru í höfn verði gerðirnar innleiddar í íslenskan rétt í beinu framhaldi. Þær kalla væntanlega á breytingar á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, og líka lögum um matvæli, nr. 96/1995. En þegar þær breytingar hafa verið gerðar munu gilda sömu reglur hér á landi og innan Evrópusambandsins.

Ég deili skoðunum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur í þessu máli. Það er mikilvægt að þessum málum ljúki, að vörur sem innihalda erfðabreytt matvæli verði merktar og að neytandinn hafi val. Ég tel að það sé ótvírætt mjög mikilvægt. Neytandinn verður að vera vel upplýstur til að geta haft það val sem um er að ræða.