135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:17]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra nefndi Ungverjaland og einhver fleiri lönd þar sem einhverjir erfiðleikar eru uppi en það er ekkert sambærilegt við það sem er hér, það verður að segjast eins og er. Þegar félagi hans úr Samfylkingunni, Árni Páll Árnason, talar um herkostnað því samfara að reka hér sjálfstæðan gjaldmiðil leggur hann ákveðna merkingu í það eins og við vitum öll. Hann er að tala um að þessi gjaldmiðill sé ekki framtíðarlausn fyrir Ísland og reyndar er ég honum sammála í þeim efnum. Þar er hæstv. fjármálaráðherra hins vegar ósammála okkur og telur eftir því sem ég best veit — nema eitthvað nýtt komi fram í síðari ræðu hans — að það sé framtíðin að halda sig við íslensku krónuna með öllum þeim afleiðingum sem það hefur fyrir íslenska þjóð og íslenskan almenning. Í stað þess að horfa á hlutina af raunsæi og viðurkenna það sem fyrst að hún er ekki framtíð í okkar efnahagsmálum og hún getur ekki verið það vegna þess að við erum á hinum innri markaði Evrópu þar sem allt flæðir frjálst, að þá er hún orðin gríðarleg hindrun.

Engu að síður styðjum við framsóknarmenn frumvarpið miðað við þær aðstæður sem eru í landinu. Eins og ég lét koma fram í ræðu minni teljum við að þetta sé allt of seint fram komið en engu að síður er mikilvægt að þetta frumvarp sé þó loksins hér til umfjöllunar á hv. Alþingi.