135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:19]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Já, ég átta mig ekki á af hverju hv. þingmaður gerir svona mikið úr þessum meinta herkostnaði. Ég veit svo sem hvaða lausnir hún vill að við tökum upp til þess að leysa úr þessum vanda. Ég veit að hún á í heilmiklum ekki kannski deilum en alla vega umræðum innan síns flokks um þá leið sem hún vill fara, en þeirri leið fylgir líka kostnaður. Það mætti líka alveg kalla þann kostnað herkostnað. Það kostar að vera í Evrópusambandinu, það kostar þar af leiðandi að taka upp evruna, við skulum ekki gleyma því þegar við erum að ræða málin á þessum nótum.

Ég verð að gera þá kröfu þegar ég ræði þessi mál og samhengið við það sem er að gerast annars staðar að hv. þingmenn hér í ræðustóli geri ekki lítið úr þeim vandamálum sem aðrir eru að glíma við. Þó að aðstæður séu mismunandi og vandamálin komi öðruvísi fram eru þau oft byggð á þessum sömu forsendum sem við höfum verið að fara hér yfir. Við eigum að fylgjast með þessu og reyna eftir því sem við getum að taka á þessum málum og fjalla þá um vandamál annarra á málefnalegum nótum.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka fyrir þann stuðning sem málið hefur fengið í þessari umræðu. Ég held að það sé út af fyrir sig gott veganesti fyrir okkur í frekari umræðu um þessi mál á næstunni.