135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fiskeldi.

530. mál
[11:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa nein sérstök andmæli uppi við þetta andsvar en vil þó árétta að ég held að umræðan þegar við vorum að tala um staðsetningu og röðun fiskeldis hafi aðallega snúist um laxeldi í sjó vegna þess að menn voru þá að tala um áframeldi á laxi sem væri að hluta til af norskum stofni og menn töluðu um áhættuna í laxeldinu og minntust fisksjúkdómanna í Færeyjum í því sambandi o.s.frv. Ég hygg að við höfum aðallega verið að reyna að raða því niður hvar eðlilegt og réttlætanlegt væri að setja niður laxeldi með tilliti til þess að sem minnst áhætta væri tekin ef fiskur slyppi úr kvíum, sem reyndar gerist oft, gagnvart þeim laxveiðiám sem næstar lægju svæðinu.