139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kaup á nýrri þyrlu.

613. mál
[17:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég skil vel að við erum í býsna þröngri stöðu hvað þetta mál varðar. Engu að síður held ég að við séum öll sammála um að það er gífurlega mikilvægt fyrir okkur að standa vel að málum sem snúa að Landhelgisgæslunni. Landhelgisgæslan vinnur ómetanleg störf, bæði öryggisstörf á sjó og landi og auðvitað sem hluti af því að verja okkar eigin landhelgi.

Eins og ég skil hæstv. ráðherra er hugsunin sú að stefna að því að kaupa eina þyrlu sem verði afhent eftir sex til sjö ár, það er býsna langur tími. Þá verða menn með einhverjum hætti að brúa bilið. Þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra hefur greint frá því að ætlunin sé að leigja til viðbótar eina þyrlu til þess að hér séu að staðaldri þrjár þyrlur og því ættu að vera, miðað við eðlilegt viðhald á þessum þyrlum, þ.e. ef ein þarf að fara í skoðun, alltaf til staðar tvær þyrlur sem gerir það að verkum að hægt verður að sinna hafsvæðinu miklu lengra en gert hefur verið. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan má samkvæmt öryggisstöðlum sú þyrla sem staðsett er hér eingöngu fljúga 20 mílur á haf út, en ef við erum með tvær þyrlur staðsettar hér mega þær fljúga 200 mílur á haf út. Það er auðvitað gífurlegur munur.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Verði það niðurstaðan að þyrla verði leigð og það takist að fá þyrlu sem hentar, hvenær má þá vænta þess að slík þyrla verði komin hingað til notkunar? Hvenær munum við búa við þó það öryggi að hafa tvær þyrlur staðsettar hér á landi, alltaf í rekstri, gagnstætt því sem nú er þegar við erum bara með eina á hverjum tíma af ástæðum sem ég rakti áðan?