141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Þann 10. júní 2011 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem kveður á um að Ísland auki aftur framlög til þróunaraðstoðar við önnur lönd árlega þar til framlög nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum […] Það er í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna um framlög iðnríkja til þessa málaflokks. Markmið um þróun framlaga til ársins 2014 eru sett fram í þingsályktuninni. Í ályktuninni er gert ráð fyrir að á árinu 2012 nemi framlögin 0,21% af vergum þjóðartekjum og að þau hækki síðan“ jafnt og þétt í framhaldinu.

Í samræmi við þá ályktun sem hér er vitnað til er í fjárlögum yfirstandandi árs varið um 1.700 millj. kr. í þróunaraðstoð. Í ýmis þróunarmál er varið ríflega þessari upphæð. Má þar nefna þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabarnahjálparstofnunina, mannúðarmál og neyðaraðstoð og samstarf við frjáls félagasamtök. Allt þetta lýsir auðvitað vilja núverandi stjórnvalda í þessum málum.

Í þeirri tillögu sem Alþingi samþykkti hér í gær segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Markmið Íslendinga með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að leggja íslensk lóð á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. […]

Markmið Íslands í þróunarsamvinnu verður að styðja áætlanir um útrýmingu fátæktar á grunni sjálfbærrar þróunar og uppbyggingar á mannauði. Sérstök áhersla verði lögð á mannréttindi, jafnrétti, frið, öryggi og verkefni þar sem íslensk sérþekking og reynsla nýtist.“

Þetta var samþykkt á Alþingi í gær með öllum greiddum atkvæðum gegn einu atkvæði framsóknarmanns, honum til mikillar skammar, flokknum hans til niðurlægingar og Alþingi sömuleiðis, (VigH: Ha?) að hér innan þessara veggja (Gripið fram í.) skuli finnast þingmenn (Gripið fram í: Hvað með …?) hvar í flokki sem þeir standa (Gripið fram í.) sem leggjast gegn því að Ísland styðji við (Forseti hringir.) þróunarríki og vinni gegn fátækt í heiminum. Það er niðurlægjandi fyrir þá þingmenn sem það gera, það er þeim til ævarandi skammar og setur þingið niður. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Síðasta hálmstráið.)